Kristrún Frostadóttir, hinn hógværi formaður Samfylkingarinnar, er nú þegar farin að skipa ráðherra í næstu ríkisstjórn sinni.
Eins og fram hefur komið horfir Kristrún fyrst og fremst til oddvita flokksins í þeim efnum meðan minni spámenn á borð við Dag B. Eggertsson fá hlutverk stuðningsfulltrúa í ríkisstjórn Kristrúnar. Eftir höfðinu dansa limirnir og hröfnunum sýnist á öllu að embættismenn séu nú þegar farnir að ganga út frá því sem vísu að Alma Möller oddviti Samfylkingarinnar í Kraganum verði næsti heilbrigðisráðherra.
Eins og allir vita eru helstu afrek Ölmu í embætti landlæknis þau að setja stein í götu einkarekinna fyrirtækja á heilbrigðissviði. Þannig sektaði kærunefnd útboðsmála Sjúkratryggingar um 41 milljón króna vegna ólögmætra samninga við myndgreiningarfyrirtæki án útboðs og að halda fyrirtækinu Intuens utan þeirra samninga. Sigurður Helgason forstjóri Sjúkratrygginga hefur ákveðið að vísa málinu til dómstóla en hrafnarnir telja að það geri hann vafalaust til að þóknast verðandi heilbrigðisráðherra í fyrsta ráðuneyti Kristrúnar.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 6. nóvember 2024.