Í áhugaverðu viðtali í Viðskiptablaði vikunnar fjallar Jón Daníelsson hagfræðiprófessor um skakka hvata hinna ört fjölgandi eftirlitsaðila með fjármálakerfinu. „Starfsmenn eftirlitsstofnana eru ekki verðlaunaðir ef vel gengur en þeim er refsað ef eitthvað slæmt gerist. Það er því hvati innan eftirlitskerfisins til að stýra kerfinu í átt sem kæfir allt,“ segir Jón. Niðurstaðan verði dýrara fjármálakerfi og lægri hagvöxtur vegna minni möguleika á að styðja við fyrirtæki í vexti. Um leið geti þetta ýtt undir hættuna á kreppum með því að skapa einsleitari fjármálafyrirtæki sem þurfi öll að tikka í sömu box eftirlitsaðila.
Sama tilhneiging á sér stað víðar meðal eftirlitsstofnana. Andstaða Samkeppniseftirlitsins við sölu Símans á Mílu til franska sjóðstýringarfyrirtækisins Ardian er annað dæmi um slíkt. Samkeppniseftirlitið hefur um árabil gert athugasemdir við eignarhald Símans á Mílu en vill, að óbreyttu, ekki hleypa í gegn samningum Símans og Ardian um viðskiptasamband Mílu og Símans eftir söluna. Þó hefur Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, helsta samkeppnisaðila Símans, fagnað sölunni, sem hann telur að muni efla samkeppni og flýta innviðauppbyggingu í fjarskiptakerfinu. Um leið skýtur það skökku við að helsti samkeppnisaðili Mílu sé fyrirtækið Ljósleiðarinn, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur.
Í samtali við Morgunblaðið í vikunni sagði Heiðar Guðjónsson íslenska stjórnsýslu taka allt of langan tíma. Of algengt væri að allir frestir væru nýttir til hins ýtrasta. Nýlega gekk Heiðar í gegnum sambærilegt ferli hjá Samkeppniseftirlitinu, þegar Sýn og Nova seldu fasteignahluta dreifikerfis síns til bandarísks fjárfestingarfélags. En eins og Jón Daníelsson benti réttilega á er það þannig að á meðan ekkert gerist er ekkert til að kenna eftirlitsaðilum um. Er hvatinn til að fresta ákvarðanatöku sterkari en hvatinn til að taka ákvarðanir sem gætu hlotið gagnrýni?
Tafirnar eru kostnaðarsamar bæði fyrir fyrirtækin og þjóðfélagið í heild. Að sama skapi má velta því fyrir sér hvort þessi tregi innan kerfisins fæli erlenda aðila frá frekari fjárfestingum hér á landi.
Annar angi af sama meiði eru áform Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um lagasetningu sem felur það í sér að rýna þurfi sérstaklega beina erlenda fjárfestingu, sem samkvæmt skilgreiningu nemur yfir 10% hlut í fyrirtækjum, með tilliti til þjóðaröryggis og almannareglu. Eins og Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins bentu á í umsögnum sínum um áformin er Ísland nokkuð undir meðaltali OECD yfir erlenda fjárfestingu, ekki síst vegna þess að landið hefur hvað mestar hömlur innan OECD á erlenda fjárfestingu.
Lagasetningin á að taka til mjög stórs hluta atvinnulífsins án þess að endilega sé rökstutt hver þörfin sé fyrir lagasetninguna. Samkvæmt áformunum falla þar undir „eignir, búnaður, kerfi, ferlar, tækni og þjónusta sem er nauðsynleg til að viðhalda eða endurreisa þjóðfélagslega mikilvæga starfsemi,“ fyrirtæki sem starfa á sviði netöryggismála eða vinna með eða hafa aðgang að mikilvægum trúnaðar- eða persónuupplýsingum, fyrirtæki sem starfa við að útvega eða framleiða mikilvæg aðföng, t.d. á sviði orku eða hrávöru eða vegna fæðuöryggis, og fyrirtæki sem njóta réttar til nýtingar á mikilsverðum náttúruauðlindum.
Hvaða vanda er verið að leysa með þessu bákni? Eru dæmi um að eigendur sem stjórnvöld hafa talið óæskilega hafi fengið að fjárfesta hér á landi án nægra skilyrða? Lagaumhverfið í hverjum geira fyrir sig hlýtur að þurfa að vera þannig úr garði gert að það sé hafið yfir eigendur fyrirtækja á hverjum tíma.
Fyrir eru eftirlitsstofnanir og víðtæk lög og reglur á flestum sviðum sem eiga að fylgjast með því að fyrirtækin fari að lögum. Þess utan er stór hluti umræddra geira að mestu í eigu hins opinbera. Ísland, sem fámennt og afskekkt ríki, þarf á erlendu fjármagni og þeirri sérfræðiþekkingu sem því fylgir að halda.
Stjórnvöld ættu því að huga að því hvernig þau geti auðveldað erlendum fjárfestum að koma til landsins í stað þess að flækja það ferli enn frekar.
Niðurstaðan við hið nýja og vaxandi eftirlitshlutverk hins opinbera er sú sama og Jón varar við í fjármálakerfinu. Hætt er við að erlend fjárfesting verði minni en ella, með einhæfara atvinnulífi, minni hagvexti og lakari lífskjörum.