Týr las frétt á vef Viðskiptablaðsins í gær um að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir máti sig nú við formannstólinn í Sjálfstæðisflokknum. Þetta sagði hún í podcasti sem heitir Chess after dark sem er á íslensku, þrátt fyrir nafnið. Svona að mestu því enskusletturnar voru ófáar.
Rétt er að taka fram að Þórdís er ekki reglulega í Valhöll að setjast sjálfan formannstólinn, heldur að máta sig við hugmyndina að verða formaður flokksins. Það er allt saman ágætt.
Þórdís sagði ýmislegt í viðtalinu. Til dæmis að hún væri „orðin svolítið þyrst í meira hægri“. Einnig sagði hún að það væri „alveg ljóst að við höfum aukið útgjöld of mikið.“
Viðtalið var tveir klukkutímar en þegar einn og hálfur klukkutími var liðinn af því ræddi hún um ríkisfjármálin. Þar sagði Þórdís að það væri mjög erfitt að lækka ríkisútgjöld. Það væri bara engin stemming fyrir því.
„Á þinginu er eiginlega enginn sem talar um að við séum að eyða of miklum peningum. Það eru allir bara með hugmyndir um allt hitt sem á að gera. Það er algjörlega inngróið að allt of miklu leyti.“
Þarna endurómar varaformaðurinn það sem formaðurinn sagði á Alþingi fyrir skömmu.
En þá má spyrja Þórdísi. Hvaða væl er þetta og hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert til að lækka ríkisútgjöld eftir að Covid lauk?
Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur stóraukið útgjöld í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Mikið af þeim útgjöldum er hrein og klár sóun á skattfé.
Vert er að nefna tvö dæmi. Þórdís hefur staðið að kaupum á dýrasta skrifstofuhúsnæði í Reykjavík fyrir utanríkisráðuneytið. Viðskiptablaðið gerði því máli skil í september. Hver bað um þetta fínerí?
Og er einhver von til þess að aðrir ríkisstarfsmenn skeri niður ferðkostnað þegar þeir sjá að ráðherrar eru á stöðugu ferðalagi á kostnað skattgreiðenda?
Í byrjun viðtalsins sagðist Þórdís hafa verið í 120 daga útlöndum í fyrra. Eitthundraðogtuttugu daga! Að meðaltali sagðist hún hafa verið í þrjá daga erlendis í hverri ferð. Meðal þeirra erinda í þessum ferðum var að sækja sendiráð heim. Hvílík sóun á skattpeningum – bæði heimsóknirnar og sendiráðin. Er ekki búið að tengja myndsímann í ráðuneytið?
Núna hlýtur einhver blaðamaður að óska eftir því að Þórdís Kolbrún afhendi upplýsingar um öll ferðalögin, ferðakostnaðinn, dagpeningana og vildarpunktana. Og erindin. Sem stundum hlýtur að hafa verið brýnt. Kannski í helmingi tilfella. Í mesta lagi.
En þegar hún hefur afhent upplýsingarnar er ekki víst að það verði kátt í höllinni. Valhöllinni.