Fasteignafélögin hafa oft verið sökuð um að vera fremur „leiðinleg“ þar sem grunnrekstur þeirra breytist lítið ár frá ári og vaxtarfyrirtæki á borð við Alvotech rata oftar á síður fjölmiðla.
Mögulega þarf þó að endurskoða meint leiðindi fasteignafélaganna, enda hafa fasteignafélögin þrjú á Aðalmarkaði verið áberandi í umræðunni síðustu vikur. Halldór Benjamín Þorbergsson var varla tekinn við sem forstjóri Regins þegar tilkynnt var um valfrjálst yfirtökutilboð félagsins í allt hlutafé Eikar.
Þau áform vöktu ekki mikla lukku hjá Matafjölskyldunni, stærsta hluthafa Eikar, sem lýstu því yfir að þau myndu leggjast gegn yfirtökutilboðinu. Guðjóni Auðunssyni og félögum í Reitum þótti greinilega miður að vera skilin út undan og lokuðu annasamri fréttaviku með því að tilkynna um samrunaviðræður við Eik. Reginn gefst þó ekki upp og tilkynnti í byrjun vikunnar að staðið yrði við áform um yfirtökutilboð.
Fróðlegt verður að sjá hvort félagið hreppir hnossið en ljóst að Eik er nokkuð óvænt orðin vinsælasta stelpan á ballinu í Kauphöllinni.
Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.