Týr fylgist furðu lostinn með tilvistarkreppu Vinstri grænna þessi dægrin.

Katrín Jakobsdóttir, fyrrum formaður flokksins og forsætisráðherra ,hlaut ekki brautargengi í forsetakosningunum og flokkurinn myndi þurrkast af þingi ef marka má nýlegar skoðanakannanir.

***

Guðmundur Ingi Guðbrandsson formaður flokksins og félags- og vinnumarkaðsráðherra segir stöðuna þýða að hann verði að færa flokkinn enn lengra til vinstri. Undir þetta Jódís Skúladóttir, þingmaður flokksins, og stefnir væntanlega að því að saka enn fleiri samþingmenn sína um að velta sér upp  „í rasískum drullupolli“ ef hún fær brautargengi til eftir næstu þingkosningar.

Tý þykir áhugavert að þetta sé ályktunin sem pólitískir leiðtogar Vinstri grænna draga af þeim ógöngum sem flokkurinn hefur ratað í. Reyndar eru ógöngurnar ekki meiri en þær að flokkurinn hefur haft mun meiri áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið en þorri kjósenda hefur getað sætt sig við.

***

En Guðmundur og Jódís stefna að hliðarlínunni á vinstri kantinum. Þetta gera þau á sama tíma og Samfylkingin undir forystu Kristrúnar Frostadóttir fer með himinskautum í könnunum. Ástæðan fyrir því að hún hefur breytt ásýnd flokksins úr því að vera samansafn lýðskrumara hvers eina pólitíska erindi var að elta uppi þær óánægjuraddir sem hæst heyrðust á samfélagsmiðlum yfir að vera tiltölulega hófsöm hreyfing sem setur sig ekki alfarið á móti atvinnuuppbyggingu og athafnafrelsi.

***

Vinstri grænir ætla sem sagt að keppa við Sósíalistaflokk Gunnars Smára Egilssonar – flokk sem hvers starf virðist ganga út á að boða þá skoðun stofnandans að íslenskt samfélag – samfélag sauðalita, Álafossúlpna, ríkiseinokunar og Ferðaskrifstofu ríkisins –  hafi náð ákveðinni fullkomnun árið 1973.

Týr efast um hvort eftir sé miklu að slægjast í þessum afkima stjórnmálanna. Ágætt er að hafa í huga að sá forsetaframbjóðandi sem gekk hvað lengst í að tala fyrir hönd svokallaðrar alþýðu í baráttunni gegn útlensku körlunum með pípuhattana sem eiga að vera kaupa upp landið hlaut örfá atkvæði.

***

Enda telur Týr að niðurstaðan verði á endanum sú að Vinstri grænir höfði eftir sem áður til ríkisstarfsmanna og fólks sem hefur almenna andstyggð á nútímanum í næstu kosningum og það muni bara ganga sæmilega.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 12. júní.