Á undanförnum misserum hafa heyrst háværar raddir um íþyngjandi regluvæðingu Evrópusambandsins, sérstaklega á atvinnulífið. Viðkvæðið er að Bandaríkin komi með nýjungar, Kína búi til eftirlíkingar en Evrópa regluvæði. Evrópusambandið hefur enda verið óþreytandi við að gera kröfur á evrópsk fyrirtæki um hvers kyns skýrslugjafir og upplýsingar, einkum þegar viðkemur sjálfbærniregluverki.

Ísland á verulega hagsmuni af Evrópusamstarfi í gegnum EES samninginn. Samningurinn veitir Íslandi aðgang að innri markaði Evrópusambandsins en hann nær yfir frjálst flæði vöru, vinnuafls, þjónustu og fjármagns. Á sama tíma og ávinningur samstarfsins er augljós krefst það mikilla skuldbindinga en í úttekt starfshóps utanríkisráðuneytisins um framkvæmd EES samningsins árið 2019 kom fram að 16% íslenskrar löggjafar frá því að samningurinn var fyrst innleiddur hérlendis, væru innleiðingar EES gerða. Þá eru ótaldar gerðir sem ekki krefjast lagabreytinga sérstaklega.

Það er auðvitað ekki svo að öll lagasetning sem við innleiðum hérlendis vegna EES samningsins feli í sér óþarflega íþyngjandi reglubyrði á atvinnulífið en undanfarin ár hefur byrðin hins vegar þótt fara vaxandi. Sumar kröfurnar má rekja beint til Evrópusambandsins en margar eru tilkomnar vegna gullhúðunar íslenskra stjórnvalda. Samkvæmt greiningu Viðskiptaráðs Íslands frá 2023 er áætlað að það hafi kostað íslenskt atvinnulíf 9,8 milljarða króna frá árinu 2016 að búa við meira íþyngjandi regluverk um ófjárhagslegar upplýsingar en sú tilskipun var innleidd með víðtækara gildissviði hérlendis en í Evrópu sem leiddi til þess að tæplega 8 sinnum fleiri íslensk fyrirtæki þurfa að fylgja reglunum.

Áherslur nýrrar framkvæmdastjórnar ESB

Framkvæmdastjórn ESB birti nýlega starfsáætlun sína fyrir árið 2025 en um er að ræða fyrstu starfsáætlun hennar á nýju kjörtímabili. Áætlunin setur tóninn til næstu fimm ára. Meginmarkmiðið er að auka samkeppnishæfni, öryggi og efnahagslegan viðnámsþrótt innan ESB. Gríðarleg áhersla er lögð á einföldun regluverks í starfsáætluninni, einkum til að auka samkeppnishæfni og létta reglubyrði þvert á atvinnulífið. Ekki verður dregið úr markmiðum um kolefnishlutleysi en þess í stað lögð áhersla á loftslagsvæna iðnvæðingu.

Nokkrar einföldunartillögur hafa þegar litið dagsins ljós. Athygli vekur að sumar þeirra varða mál frá fyrri framkvæmdastjórn sem hafa ekki enn komið til fullrar framkvæmdar. Þannig er t.a.m. lagt til að gildissvið CSRD tilskipunarinnar nái eingöngu til fyrirtækja þar sem starfa 1000 manns eða fleiri. Magn þeirra gagna sem þarf að safna, votta og birta árlega minnkar einnig verulega. Ef tillagan nær fram að ganga er ljóst að áhrifin verða mikil á fyrirtæki í Evrópu.

Evrópa vaknar til vitundar

Í alþjóðlegum samanburði er Ísland reglulega meðal neðstu ríkja þegar kemur að mælingum á reglubyrði á atvinnulífið. Íslensk stjórnvöld hafa skýlt sér á bakvið það að vegna EES samningsins sé óumflýjanlegt að innleiða íþyngjandi reglur Evrópusambandsins á íslenskt atvinnulíf. Það er að mörgu leyti rétt en það skiptir höfuðmáli að reglurnar séu innleiddar með sambærilegum hætti hér og annars staðar á innri markaðnum. Annars skapast ekki sú einsleitni sem að er stefnt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs skerðist.

Ef fram fer sem horfir má sjá fram á verulega einföldun á evrópsku regluverki á þessu kjörtímabili framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Í ljósi breyttrar heimsmyndar er Evrópa að vakna til vitundar um nauðsyn þess að hlúa að atvinnulífi álfunnar til að tryggja samkeppnishæfni hennar.

Nú blasir við kjörið tækifæri fyrir nýja ríkisstjórn sem horfir hlýlega til Evrópusambandsins. Í nafni einsleitninnar þarf að einfalda regluverk. Það er þægilegt að bera fyrir sig reglugleði Evrópusambandsins þegar gagnrýnin er neikvæð. Nú verður hins vegar að nýta tækifærið og ganga á eftir góðu fordæmi og „afhúða“ regluverkið til að skapa áframhaldandi verðmæti og lífskjör. Göngum í málið!

Höfundur er lögmaður á málefnasviði og alþjóðafulltrúi Samtaka atvinnulífsins.