Sigurður Hannesson og félagar hans hjá Samtökum iðnaðarins veittu á dögunum Róberti Wessman, stofnanda Alvotech, og Guðmundi Fertram Sigurjónssyni, stofnanda Kerecis, Geisla, sérstaka viðurkenningu SI fyrir framlag þeirra til íslensks atvinnulífs og verðmætasköpunar í landinu.
Róbert og Guðmundur eru vel að þessu komnir og eiga sannarlega hrós skilið fyrir hvernig þeir byggðu upp þessi verðmætu fyrirtæki frá grunni.
Það sem vakti þó mesta athygli hrafnanna var verðlaunagripurinn Geisli, sem hvort fyrirtæki um sig fékk afhent til eignar, en hröfnunum þykir gripurinn minna einna helst á þvottabjörn. Hvort gripnum sé ætlað að vera óður til Ásgeirs Brynjars Torfasonar, ritstjóra Vísbendingar, skal ósagt látið en lýsingin á honum fangar þó óneitanlega gildi hans og viðhorf:
„Gripurinn sem unnin er úr hvítum marmara er með listrænum tilvísunum í seiglu, snerpu og frumkvöðlaanda. Hann táknar afrek og hugrekki í viðskiptum.“
Sem kunnugt er þá er Ásgeir meðal helstu sérfræðinga heims um hlutverk þvottabjarna í diplómatískum samskiptum Kínverja og hefur meðal annars verið fenginn sem sérstakur álitsgjafi um þau mál í morgunútvarpi Ríkismiðilsins.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.