Það voru töluverð tíðindi þegar Þórður Már Jóhannsson og Hreggviður Jónsson seldu hlut sinn í Festi í síðustu viku.

Munu þetta vera fyrstu stóru viðskiptin í Kauphöllinni í meira en hálft ár þar sem beinharðir peningar koma við sögu í stað hlutabréfaskipta og segir það meira en mörg orð um stöðuna á verðbréfamarkaðnum hér á landi. Engum dylst hver ástæðan fyrir sölunni er en hana má rekja til þess að Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR, beitti sér gegn Þórði eftir að tilnefningarnefnd Festis lagði til að hann tæki sæti í stjórn félagsins fyrr á þessu ári.

Hvað sem því líður telja hrafnarnir vera eftirsjá af Þórði og Hreggviði úr hluthafahópi Festi og gjalda varhug við þeirri þróun að Kauphallarfyrirtæki verði fyrst og fremst í eigu stofnanafjárfesta á borð við lífeyrissjóði og einkafjárfestar með reynslu úr atvinnulífinu komi lítið að stjórn þeirra.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 10. júlí.