Það er til marks um algjöra þrotstefnu borgarmeirihlutans í leikskólamálum að einkafyrirtæki eru farin að grípa til sinna mála. Arion banki heldur úti daggæslu og Róbert Wessman forstjóri Alvotech áformar að reisa nokkra leikskóla fyrir börn starfsmanna.

Þessi viðbrögð koma hröfnunum ekki á óvart þar sem úrræðaleysið hjá yfirvöldum er algjört. Borgin getur hvorki rekið leikskóla né byggt þá ómyglaða. Þetta úrræðaleysi endurspeglast í orðum Haraldar Freys Gíslasonar, formanns Félags leikskólakennara, um að eina lausnin í sjónmáli sé að senda ekki börn á leikskóla yfirhöfuð og lengja fæðingarorlof foreldranna þess í stað.

Það er eins og borgaryfirvöld reyni sitt ítrasta að tryggja að fólki séu allar bjargir bannaðar: Þannig lýsti Benedikt Gíslason bankastjóri Arion því í viðtali hversu flókið og erfitt það hafi verið að fá tilskilin leyfi fyrir dagvistuninni hjá borgaryfirvöldum. Þetta kemur frá manni sem starfar eftir regluverki fjármálamarkaða. Hrafnarnir eru ekki sérlega spenntir fyrir að fá þessa hugmyndafræði yfir í þjóðmálin.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 18. desember.