Framsóknarmenn allra flokka keppast nú við að sannfæra almenning um að einokun sé skilvirkasta leiðin til þess að halda vöruverði lágu og tryggja hag neytenda.

Framsóknarmenn allra flokka keppast nú við að sannfæra almenning um að einokun sé skilvirkasta leiðin til þess að halda vöruverði lágu og tryggja hag neytenda.

Tilefnið er kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska sem sagt var frá í vikunni. Viðskiptin eru ekki háð samþykki Páls Gunnars Pálssonar í Samkeppniseftirlitinu eftir umdeildar lagabreytingar sem gerðar voru síðasta vetur.

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu á þriðjudag segir Sigurjón Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóri KS, og hægri hönd Þórólfs Gíslasonar kaupfélagsstjóra, kaupin vera nauðsynleg viðbrögð við samkeppni frá erlendum framleiðslufyrirtækjum. Hrafnarnir geta að einhverju leyti fallist á þá röksemd og benda í því samhengi á tillögur verkefnastjórnar um landbúnaðarstefnu, sem Björn Bjarnason sat meðal annars í, sem skipuð var fyrir nokkrum árum. Meðal tillagnanna var að auka samstarf innlendra kjötframleiðenda gegn því að tollar á innfluttu kjöti verði lækkaðir. Þá gætu kaupfélagsmenn stundað sína einokun í friði í sveitum landsins á meðan aðgengi neytenda að innfluttu gæðakjöti á góðu verði væri tryggt.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 10. júlí.