Hrafnarnir gáfu því gaum að tveir af dáðustu embættismönnum lýðveldissögunnar, Ívar Arndal, forstjóri ÁTVR, og Alma Möller, fyrrverandi landlæknir og núverandi heilbrigðisráðherra, hafa tekið höndum saman.
Þannig birti ÁTVR fyrir rúmum tveimur vikum tilkynningu á vef sínum þar sem nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er hampað en samkvæmt ríkiseinokunarversluninni segir í skýrslunni að norræna ríkiseinokunarsölumódelið sé mikilvæg fyrirmynd til að draga úr áfengisneyslu og neikvæðum áhrifum á lýðheilsu.
Tæpum tveimur vikum síðar birti heilbrigðisráðuneytið keimlíka tilkynningu og því ljóst að Ívar og Alma hafa tekið höndum saman til að vernda tilverurétt úreltrar stofnunar sem íslenskir neytendur hafa löngu hafnað.
Hröfnunum þykir þó einsýnt að til að ná markmiðum tvíeikisins um vímuefnalaust Ísland þurfi að ganga mun lengra í forsjárhyggjunni. Þannig mætti t.d. fara íslömsku-leiðina og leggja blátt bann við neyslu áfengis, sem hefur t.d. gefist mjög vel í Afganistan um langt skeið.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.