Sumir eru gleðigjafar þegar þeir koma en aðrir þegar þeir fara. Þegar Sante.is hóf samkeppni við síðustu einokunarverslun Íslands kættust margir yfir lægra vöruverði, aðrir yfir betri vínum. Enn aðrir yfir heimsendingu, þjónustu sem hentar mörgum hvort heldur var til að spara tíma eða eiga erfitt með burðinn.

Sante.is hefur nú verið opin í um 19 mánuði og hefur hið opinbera tekið við hundruðum milljóna í áfengisgjöldum og virðisaukaskatti án athugasemda. Engu að síður þurfti bréfritari að mæta nýlega til skýrslutöku hjá lögreglu til að gera grein fyrir sakarefnum sem „hið opinbera” nánar tiltekið, forstjóri ÁTVR hefur kært í þremur liðum, skattsvik, brot gegn áfengislögum og brot á tollalögum. Svo óheppilega vildi til að ávirðingar um virðisaukaskattsvik voru borin upp áður en fyrst gjalddagi rann upp og voru því helst til ótímabærar. Sömuleiðis kom það nokkuð flatt upp á embætti Skattsins að virðisaukaskattsnúmer sem stofnunin hafði úthlutað væri ekki til að mati ÁTVR.

Bréfritara þótti því nærtækast að benda lögregluyfirvöldum á til þess bær embætti til að fá svör við þessum liðum og sama ætti reyndar við um tollalögin þar sem Sante er einn örfárra áfengisinnflytjenda sem staðgreiðir áfengisgjöld við útleysingu úr tolli og eru tollskýrslur gerðar af til þess bærum tollmiðlara. Að því er brot á áfengislögum varðaði var bent á að kærandi rannsakar sjálfan sig í þeim efnum og hefur upplýst að samkvæmt eigin rannsóknum fá 20% ungmenna sem ekki hafa náð aldri afgreiðslu í verslunum stofnunarinnar. Hér ætti stofnunin sem sagt að kæra sig sjálfa í stað þess að kæra sig kollótta og benda á aðra. Til að aðstoða yfirvöld mun Sante svo óska eftir nánari upplýsingum frá einokunarstofnuninni um upplýsta misbresti að því er þetta varðar og senda inn viðeigandi kæru til lögreglu en brot varða leyfissviptingu og fangelsi. Í netverslun Sante getur engin verslað nema hafa sannreynt aldur með rafrænum skilríkjum.

Viðbrögð einokunarrisans við samkeppninni voru engu að síður jafn ófyrirsjáanleg eins og þau voru illa ígrunduð og engu líkara en að stofnunin sé jafnvel enn lélegri í lögfræði heldur en í verslun með vín.

Lögfræðiálit ÁTVR

Fyrir um sjö árum lét ÁTVR vinna fyrir sig lögfræðiálit um lagaumhverfið með tilliti til þess ef netverslun einkaaðila yrði að veruleika í samkeppni við stofnunina. Niðurstöður álitsins voru nokkuð á einn veg að lagaumhverfið hér á landi tæki einfaldlega ekki að neinu leiti til netverslunar:

„Samanborið við löggjöf Norðurlandanna þriggja er íslensk löggjöf og regluverk um innflutning áfengis til eigin nota mjög fátæklegt.“

„Ekkert bann er berum orðum við milligöngu um útvegun og afhendingu áfengis gegn þóknun.“

„óhætt að fullyrða að réttarstaðan er óskýr, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og erfitt að spá fyrir um hver teldist gildandi réttur ef reyndi á hvar draga ætti mörk löglegrar atvinnustarfsemi í tengslum við einkainnflutning áfengis og netsölu.“

Viðbrögð einokunarrisans við samkeppninni voru engu að síður jafn ófyrirsjáanleg eins og þau voru illa ígrunduð og engu líkara en að stofnunin sé jafnvel enn lélegri í lögfræði heldur en í verslun með vín. Í inngangi að ársreikningi lýsir einokunarforstjórinn að því hafi verið fleygt í opinberri umræðu að jafna þurfi stöðu innlendra og erlendra netverslana sem væri ekki rétt af því að þær erlendu heyrðu ekki undir íslensk lög. Engu að síður kærir hann erlenda netverslun fyrir brot á íslenskum lögum.

Einokunarstofnunin bætti um betur og fór í einkamál á kostnað skattgreiðenda sem tapaðist 7-0.

Líklega er það svo einsdæmi að æðsti yfirmaður stofnunar fjármálaráðherra, lýsi netverslun með áfengi sem „kærkominni viðbót” en stofnun sem undir hann heyri kæri þá sömu starfsemi til lögreglu. Einnig mætti benda á orð tveggja dómsmálaráðherra í sömu veru um að enga meinbugi sé að finna á starfseminni. Þess má geta að forstjóra ÁTVR ber að framfylgja stefnu stjórnvalda í áfengismálum hverju sinni. Sýslumannsembættið í Reykjavík brást við kæru ÁTVR með því að framlengja starfsleyfi Sante ehf. ótímabundið. Einokunarstofnunin bætti um betur og fór í einkamál á kostnað skattgreiðenda sem tapaðist 7-0 á jafn mörgum málsástæðum. Kæra bíður engu að síður ákvörðunar ákærusviðs lögreglu!

Lögmenn Sante eru um þessar mundir að leggja lokahönd á kæru til ESA (eftirlitsstofnunar EFTA) á hendur íslenska ríkinu vegna brota á EES samningnum. Annarsvegar er um að ræða ólögmætan ríkisstuðning við smásöluverslun sem niðurgreidd er með hagnaði af tóbaks heildsölu sem með réttu ætti að renna í ríkissjóð. Hin krafan lýtur að mismunun á grundvelli þjóðernis samfara s.k. „brugghúsafrumvarpi” þar sem litlum íslenskum brugghúsum er heimilt að selja framleiðsluvörur í eigin húsakynnum en erlendum smáframleiðendum er meinuð samsvarandi starfsemi hér á landi.

Ef eina verkfærið er hamar …

Enn annað mál er að leidd hefur verið í íslenskan rétt evróputilskipun sem bannar mismunun á grundvelli þjóðernis í netverslun á EES svæðinu. Tilskipuninni var að sjálfsögðu tekið fagnandi á Íslandi þar sem evrópskum netverslunum er nú óheimilt að neita að þjónusta útkjálkasvæði eins og Ísland. Hin hliðin á því máli er að netverslun t.d. brugghúsa sem beint væri að erlendum kaupendum væri þá óheimilt að neita að selja einnig til íslenskra neytenda. Hér þyrfti semsagt að setja í bakk- og fyrsta gír á sama tíma.

Augljóslega voru áfengislög og lög um rekstur ÁTVR ekki samin með netverslun í huga og má segja að flest rekist á annað í því laga og reglugerðar fargani sem innleitt hefur verið hér á landi til þess eins að finna einfaldar lausnir á flóknum vandamálum. Lagasetningin virðist hafa stokkið á svarið án þess að spurning hafi verið til staðar. Ef eina verkfærið er hamar, verða öll viðfangsefni að nöglum.

Hér er ekki verið að halda því fram að rekstur ÁTVR (sem kostar 4.800 milljónir árlega) sé úreltur né að nú sé einhver sérstakur tími umfram aðra til að aflétta einokuninni. Hún hefur alltaf verið óréttmæt þótt hún hafi loks nú verið rofin samfara breyttum verslunarháttum.

Höfundur er eigandi Sante.is. Greinin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 3. nóvember 2022.