Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, steig fram á dögunum og hrósaði sjálfri sér fyrir að hafa ekki tekið þátt í málþófi stjórnarandstöðunnar í umræðu um veiðigjaldafrumvarpið. Það er kannski engin furða að Halla Hrund hafi ákveðið að láta málþófið eiga sig enda lýsti hún því yfir að hún væri sammála áherslum ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda.
Týr kann að meta þegar stjórnmálamenn standa með eigin sannfæringu, jafnvel þó að sú sannfæring sé ekki alltaf í takt við áherslur flokksins sem stjórnmálamaðurinn tilheyrir. Það er þó ekki þar með sagt að það sé alltaf skynsamlegt að láta eigin sannfæringu ráða för, því einnig ber að hafa í huga að góðar ástæður liggja yfirleitt að baki áherslum stjórnmálaflokka. Framsóknarflokkurinn sækir til að mynda meginþorra fylgi síns frá landsbyggðinni og má gera ráð fyrir að hækkun veiðigjalda, sem bitnar að mestu á landsbyggðinni, leggist ekki vel í marga kjósendur flokksins. Má því ætla að orð Höllu Hrundar pirri margan framsóknarmanninn. Þrátt fyrir að hafa varið nokkrum sumrum í sveit á barnsaldri er skilningur hennar á málefnum landsbyggðarinnar ekki meiri en þetta.
Staða Framsóknarflokksins hefur sjaldan eða aldrei verið veikari en undanfarið. Til marks um það nam fylgi flokksins 7,8% á landsvísu í síðustu Alþingiskosningum. Flokkurinn má því alls ekki við því að fæla frá þá fáu kjósendur sem enn hafa trú á flokknum.
Í aðdraganda þingkosninganna í lok síðasta árs var Halla Hrund orðuð við hina ýmsu stjórnmálaflokka. Hún var hvað mest orðuð við Samfylkinguna en endaði nokkuð óvænt í Framsókn. Miðað við áherslur Höllu Hrundar í veiðigjaldamálinu væri hún best geymd í Samfylkingunni en Kristrún Frostadóttir er sögð hafa verið mótfallin þeim liðsstyrk.
Týr hefur frá því að Halla Hrund tók sæti á þingi velt fyrir sér pólitísku erindi hennar. Ekki verður betur séð en að það liggi í samblöndu af stuðningi við skattastefnu Samfylkingarinnar og stefnu Landverndar í orkumálum, líkt og tími hennar sem orkumálastjóri gefur til kynna. Sé horft til þróunar lífskjara og verðmætasköpunar hér á landi er vandfundinn eitraðri kokteill.
Týr er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.