Það er að koma í ljós að rýrar ástæður lágu að baki upphlaupsins sem stjórnarandstaðan efndi til í kjölfar birtingu skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Eigi að síður virðist stjórnarandstaðan einsetja að nýta hvert tækifæri til að tortryggja söluferlið og koma í veg fyrir að því verði haldið áfram.
Sem kunnugt er stefna stjórnvöld að því að selja restina í bankanum á næsta ári og gera áætlanir að salan skili ríkissjóði 76 milljörðum. Augljóst er að verulegir hagsmunir eru að því verði. Þrátt fyrir það er eins og það sé markmið stjórnarandstöðunnar að koma í veg fyrir söluna. Róið er öllum árum að þessu markmiði undir skálkaskjóli kröfunnar um að Alþingi skipi rannsóknarnefnd sem kanni málið enn frekar. Undarleg krafa í ljósi þeirrar staðreyndar að búið er að upplýsa um nánast alla þætti málsins sem verður að fullu upplýst þegar Fjármálaeftirlitið lýkur sinni könnun.
Þingmenn Viðreisnar hafa verið einna háværastir í þessum efnum. Þannig hefur Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, ítrekað að sala á frekari hlut ríkisins í bankanum komi ekki til greina sökum skorts á trausti. Er þá væntanlega verið að vísa til þess að trausts sem stjórnarandstaðan reynir statt og stöðugt að grafa undan í málinu. Þá kvaddi Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, sem einnig situr á þingi fyrir Viðreisn, sér hljóðs í þinginu á mánudag. Spurði hún þá Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hvað myndi gerast ef að þessir 76 milljarðar skili sér ekki í ríkissjóð á næsta ári. Augljóst er af spurningunni að þingmaðurinn gefur sér að áætlunarverk stjórnarandstöðunnar skili árangri og ekkert verði af sölu Íslandsbanka á næsta ári.
Þegar Bjarni Benediktsson efnahags- og fjármálaráðherra kynnti fjárlög næsta árs lýsti hann í samtali við Viðskiptablaðið að selja ætti restina af eign ríkisins í Íslandsbanka í almennu hlutafjárútboði. Sem kunnugt er þá var efnt til almenns útboðs þegar bankinn var skráður í Kauphöllina á sínum tíma. Það útboð heppnaðist í flesta staði vel og mikil þátttaka almennings varð til þess að styrkja íslenska hlutabréfamarkaðinn enn frekar.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar geta haldið áfram að tortryggja efnisþætti síðasta útboðs út í hið óendanlega. En ekkert í þeim málflutningi gefur ástæðu til þess að hætta við að selja restina af hlut ríkisins í almennu útboði.
Frá því að Íslandsbanki var skráður á markað hefur verið ráðist í nokkurn fjölda skráninga og almennra hlutabréfaútboða. Þessi útboð hafa verið í umsjón íslenskra fjármálafyrirtækja og almenningur hefur tekinn mikinn þátt í þeim og stuðlað þar með styrkingu hlutabréfamarkaðarins. Sú þátttaka endurspeglar traust almennings á markaðnum og þeim fjármálafyrirtækjum sem annast slík útboð. Í þessu samhengi má meðal annars nefna að þau félög sem hafa verið skráð á markað á undanförnum eru með fjölmennustu hluthafahópanna í Kauphöllinni. Sú staðreynd að minnsta kosti þrjú stór félög – Bláa lónið, Íslandshótel og Arctic Adventures – hafa boðað skráningu í Kauphöllina á næstu misserum bendir jafnframt til þess að menn reiði sig á áframhaldandi þátttöku almennings á markaðnum.
Til þess að ljúka sölunni í almennu útboði þarf ríkið einungis að ganga til samninga við fjármálafyrirtækja um gerð skráningarlýsingar og umsjón útboðsins. Ekkert í því moldviðri sem þyrlað hefur verið upp um skýrslu Ríkisendurskoðunar torveldar slíka samningsgerð. Haldi stjórnarandstæðingar öðru fram verður gera kröfu um greinargóðan rökstuðning fyrir þeim skoðunum.
Tímasetningin er einnig hagstæð. Gengisþróunin bréfa Íslandsbanka frá útboðinu í mars hefur aukið virði hlutar ríkisins í bankanum meðal annars vegna þess hversu vel tímasett það var. Það að íslenski hlutabréfamarkaðurinn var settur í flokk í nýmarkaðsríkja í FTSE-hlutabréfavísitölunni í september skapar jafn framt tækifæri þessum efnum og mikilvægt að undirbúningur fyrir almennt lokaútboð í Íslandsbanka verði vel á veg komið áður en lokaskrefið verður stigið í þeim efnum.