Undanfarið hefur orðið mikil og hröð þróun á kröfum til fyrirtækja varðandi svokallaða ESG þætti, eða umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti.

Undanfarið hefur orðið mikil og hröð þróun á kröfum til fyrirtækja varðandi svokallaða ESG þætti, eða umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti.

Evrópusambandið hefur að miklu leyti til leitt þróunina með afar metnaðarfullum áætlunum og regluverki sem er m.a. ætlað að ýta fjármagni í átt að sjálfbærum lausnum. Þannig er stefnt að því að fyrirtæki sem standa vel þegar kemur að sjálfbærnimálum eigi kost á hagstæðari fjármögnun. Ýmis dæmi um kröfur og hvata í þessa átt má nefna, en hollenski bankinn ING tilkynnti t.a.m. nýlega að bankinn muni hætta að fjármagna viðskiptavini sem hann telur að vinni ekki í að draga úr kolefnisspori sínu og fyrr á árinu kynnti HSBC framsækna áætlun sína um hvernig hann verði „net-zero“ banki árið 2050.

Ítarlegri upplýsingagjöf framundan

Upplýsingagjöf fyrirtækja um hvernig þau haga umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum sínum skipta því sífellt meira máli. Krafan um bætta upplýsingagjöf fyrirtækja kom upphaflega frá fjárfestum og öðrum hagaðilum sem þótti skorta áreiðanleg og samanburðarhæf gögn um sjálfbæra fjárfestingarkosti og græna starfsemi. Í takt við metnaðarfull markmið sín hefur Evrópusambandið kynnt regluverk sem snýr að upplýsingagjöf fyrirtækja og stöðu þeirra í sjálfbærnimálum.

Nú bíður innleiðingar hér á landi einn hluti þessa regluverks, tilskipun varðandi upplýsingagjöf um sjálfbærni eða CSRD-tilskipunin (e. Corporate Sustainability Reporting Directive). Tilskipunin er umfangsmikil og krefst þess að fyrirtæki veiti með heildstæðum hætti upplýsingar um árangur  á sviði sjálfbærni og fleiri þátta í samræmi við sjálfbærnisreikningsskilastaðal (e. European Sustainability Reporting Standards). Upplýsingarnar eiga einnig að ná til allrar virðiskeðju fyrirtækisins og þó tilskipunin taki einungis til stærri fyrirtækja mun hún þannig hafa afleidd áhrif á fjölda annarra.

Mörg fyrirtæki hafa hafið undirbúning að upplýsingagjöf í samræmi við tilskipunina, en gert er ráð fyrir að birta þurfi upplýsingarnar fyrir reikningsárið 2025 og nauðsynlegt að huga að undirbúningi snemma. Frumvarp til laga vegna íslensku innleiðingarinnar hefur þó enn ekki verið lagt fram og er mikilvægt að svo verði sem fyrst þar sem gefa þarf fyrirtækjum svigrúm til að kynna sér tillögu að útfærslu reglnanna hérlendis.

Löggjafinn má ekki vinna gegn markmiðum reglnanna

Í þessu samhengi hefur mikið verið rætt um tilhneigingu löggjafans til að gullhúða regluverk frá Evrópusambandinu með séríslenskum íþyngjandi kröfum. Gullhúðunin hefur reynst fólki og fyrirtækjum kostnaðarsöm og því er eðlilegt að þrýstingur sé á stjórnvöld og löggjafann að láta af þeirri tilhneigingu. Þá er afar  mikilvægt að varast séríslensk frávik, sem bæði ganga gegn markmiðum regluverksins um að auka samræmi í upplýsingagjöf, og auka hættuna á því að íslensk fyrirtæki verði af tækifærum vegna þess að upplýsingagjöf þeirra samræmist ekki kröfum erlendis.

Framundan er aðlögunartímabil þar sem íslenskum fyrirtækjum gefst kostur á að afla gagna og uppfæra sína upplýsingagjöf í takt við nýjar kröfur, en mörg fyrirtæki rákust t.a.m. á veggi fyrr á árinu við að afla gagna og veita upplýsingar í fyrsta sinn í samræmi við annan hluta af sjálfbærniregluverki Evrópusambandsins, flokkunarreglugerðina (e. Taxonomy). Þar á löggjafinn að hluta til sökina, en vegna innleiðingarhalla á reglugerðum sem tengjast flokkunarreglugerðinni gátu einhver fyrirtæki ekki uppfyllt skyldur sínar í samræmi við reglurnar að fullu. Þetta eykur eins og fyrr sagði hættuna á því að upplýsingagjöf íslenskra fyrirtækja samræmist ekki kröfum erlendra fjárfesta og er mikilvægt að bæta úr þeirri stöðu.

Á meðan fyrirtæki þurfa að vera vel undirbúin og huga tímanlega að næstu skrefum í upplýsingagjöf sinni, þurfa stjórnvöld einnig að huga að heildarmyndinni þegar kemur að innleiðingu sjálfbærniregluverks. Regluverkið er umfangsmikið og innleiðingin verður áskorun fyrir íslenskt atvinnulíf og eru séríslenskar lagahindranir til þess fallnar að flækja regluverkið óþarflega. Því er mjög mikilvægt  að stjórnvöld vinni með fyrirtækjum, vandi til verka og tryggi þannig að ekki sé unnið gegn markmiðum regluverksins og atvinnustarfsemi í landinu.

Höfundur er verkefnastjóri hjá BBA//Fjeldco.