Flestir Íslendingar hafa það náðugt yfir hátíðarnar með fjölskyldum sínum. En sumir hafa það náðugra en aðrir. Opinberir starfsmenn njóta sérréttinda umfram starfsfólk í einkageiranum. Þeir vinna styttri vinnuviku, búa við meira starfsöryggi, hafa ríkari veikindarétt og taka lengra orlof.

Sérréttindi opinberra starfsmanna jafngilda 19% kauphækkun samanborið við einkageirann. Með öðrum orðum er tímakaup opinberra starfsmanna í reynd þeim mun hærra en hjá starfsfólki í einkageiranum með sömu mánaðarlaun. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Viðskiptaráðs þar sem sérréttindin eru metin til fjár.

Styttri vinnutími

Ein veigamestu sérréttindin eru styttri vinnutími, en hann jafngildir 11,1% kauphækkun opinberra starfsmanna samanborið við einkageirann. Að meðaltali vinna opinberir starfsmenn 32,3 klukkustundir á viku á meðan starfsfólk í einkageiranum vinnur 35,7 klukkustundir.

Auk þess eru matar- og kaffihlé oftar talin til vinnutíma hjá opinberum starfsmönnum, sem eykur muninn í virkum vinnustundum talið. Þessi munur hefur aukist í kjölfar tilraunaverkefnis um styttingu vinnuvikunnar, þar sem hið opinbera hefur gengið lengra en einkageirinn.

Engin skýr merki eru um að þjónusta hins opinbera hafi batnað eða skilvirkni aukist vegna styttri vinnuviku.

Þvert á móti sýndi úttekt KPMG að ánægja með þjónustu hins opinbera hafi í flestum tilfellum dregist saman.

Meira starfsöryggi

Uppsagnarvernd opinberra starfsmanna er einnig ríkari en í einkageiranum. Þeir njóta í dag þrefaldrar uppsagnarverndar, sem jafngildir 2,7% kauphækkun miðað við einkageirann.

Í fyrsta lagi njóta þeir almennrar verndar, sem gildir einnig í einkageiranum og kveður t.d. á um uppsagnarfrest og vernd í fæðingarorlofi.

Í öðru lagi njóta þeir verndar stjórnsýslulaga, sem kveða m.a. á um meðalhóf, andmælarétt, rökstuðning og leiðbeiningarskyldu vegna ákvörðunar um uppsögn.

Í þriðja lagi njóta þeir verndar svokallaðra starfsmannalaga. Þar er kveðið á um að starfsmaður þurfi að brjóta af sér tvisvar með sambærilegum hætti innan tiltekins tímaramma og hljóta skriflega áminningu fyrir fyrra brotið áður en heimilt er að segja honum upp.

Þessi þrefalda vernd, og þá sérstaklega áminningarferli starfsmannalaga, er svo þunglamaleg að í reynd er opinberum starfsmönnum nær aldrei sagt upp.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að á sex ára tímabili fengu 17 ríkisstarfsmenn af 22.000 skriflega áminningu, eða 0,08%. Hlutfall uppsagna í kjölfar áminningar er síðan ennþá lægra.

Ríkari veikindaréttur og lengra orlof

Opinberir starfsmenn hafa einnig ríkari veikindarétt, sem jafngildir 3,3% kauphækkun. Sem dæmi um það á opinber starfsmaður rétt á 95 veikindadögum eftir eitt ár í starfi samanborið við 24 daga hjá starfsmanni í einkageiranum.

Þá nýta opinberir starfsmenn tvöfalt fleiri veikindadaga en starfsfólk í einkageiranum, eða 16 daga á ári að meðaltali samanborið við 8. Loks fá opinberir starfsmenn lengra orlof, sem jafngildir 1,4% kauphækkun.

Þeir fá 30 daga orlof óháð starfsaldri á meðan starfsfólk í einkageiranum fær 27 daga að meðaltali: 24 daga við upphaf starfs sem hækkar upp í 30 daga eftir sjö ár í starfi.

Orlofsrétturinn er ekki bara lengri heldur einnig ríkari hjá opinberum starfsmönnum. Þeir njóta meiri réttinda þegar kemur að veikindum á orlofstökutímabili og ávinna sér einnig orlofsrétt í fæðingarorlofi.

Jöfnum réttindin

Sérréttindi opinberra starfsmanna fela í sér misræmi gagnvart starfsfólki í einkageiranum. Þá standa þau hagkvæmni í opinberum rekstri fyrir þrifum og eru á skjön við vilja almennings.

Í skoðanakönnun Maskínu fyrir Viðskiptaráð töldu 80% svarenda að starfsöryggi ætti að vera sambærilegt hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Sérréttindin torvelda líka samanburð á launakjörum og skekkja umræðu um kjaramál.

Þetta má sjá í kröfugerðum fjölmennra opinberra stétta í tengslum við nýlegar verkfallsaðgerðir. Þar hefur forsvarsfólk opinberra starfsmanna borið laun þeirra saman við einkageirann án þess að taka tillit til verðmætanna sem felast í sérréttindum þeirra.

Í úttekt okkar er lagt til jafnlangar vinnuvikur, jafnt starfsöryggi, jafnan veikindarétt og jafnan orlofsrétt.

Eina undantekningin væri ríkari uppsagnarvernd fyrir embættismenn og æðstu stjórnendur (um 4% opinberra starfsmanna), sem myndu áfram njóta viðbótarverndar stjórnsýslulaga. Vonandi munu ný stjórnvöld halda áfram þeirri vegferð sem hófst með lagasetningu um jöfnun lífeyrisréttinda árið 2016.

Jöfnun starfstengdra réttinda myndi bæta þjónustu hins opinbera, auka sátt á vinnumarkaði og tryggja að allir hafi það jafn náðugt um jólin