Eins og vart fór framhjá landsmönnum tryggði íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu sér sæti á Evrópumótinu sem fram fer í Sviss sumarið 2025. Ætla má að töluverður fjöldi muni fylgja liðinu á mótið en það verður þó að viðurkennast að Sviss, þar sem verðlag verður seint talið lágt, er ekki draumastaðsetning fyrir verðbólguþjáða þjóð.

Spilamennska landsliðsins í 3-0 sigrinum á Þjóðverjum, sem tryggði íslenska liðinu sæti á EM, vakti vitaskuld kátínu meðal hrafnanna. Síðari leikurinn í verkefninu, 0-1 útisigur á Pólverjum, var öllu rólegri og tilþrifaminni viðureign. Aftur á móti vöktu ummæli landsliðsþjálfarans Þorsteins Halldórssonar í viðtali að leik loknum athygli hrafnanna.

Eins og vart fór framhjá landsmönnum tryggði íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu sér sæti á Evrópumótinu sem fram fer í Sviss sumarið 2025. Ætla má að töluverður fjöldi muni fylgja liðinu á mótið en það verður þó að viðurkennast að Sviss, þar sem verðlag verður seint talið lágt, er ekki draumastaðsetning fyrir verðbólguþjáða þjóð.

Spilamennska landsliðsins í 3-0 sigrinum á Þjóðverjum, sem tryggði íslenska liðinu sæti á EM, vakti vitaskuld kátínu meðal hrafnanna. Síðari leikurinn í verkefninu, 0-1 útisigur á Pólverjum, var öllu rólegri og tilþrifaminni viðureign. Aftur á móti vöktu ummæli landsliðsþjálfarans Þorsteins Halldórssonar í viðtali að leik loknum athygli hrafnanna.

Þorsteinn, sem er annálaður stemningsmaður og spéfugl, var í viðtalinu spurður út í misskilning pólsku sjónvarpsmannanna sem héldu að Þorvaldur Ingimundarson, sem er hluti af starfsliðinu, væri þjálfari íslenska liðsins og beindu myndavélinni því í gríð og erg að honum. Þorsteinn kvaðst reikna með að klæðaburður þeirra hafi spilað inn í. Þorvaldur hafi verið best klæddur á bekknum og sjónvarpsmennirnir því reiknað með að hann væri þjálfari liðsins.

„Þeir horfðu á einhvern mann sem var vel klæddur. Ég bara í einhverjum Puma-lörfum,“ sagði Þorsteinn kíminn.

Þrátt fyrir að Þorsteinn hafi augljóslega verið að gantast velta hrafnarnir fyrir sér hvað Puma, stærsta og mikilvægasta styrktaraðila KSÍ, þyki um þessar köldu kveðjur landsliðsþjálfarans. Mögulega fær Þorsteinn tiltal frá Þorvaldi Örlygssyni, formanni KSÍ, sem eflaust vill halda forsvarsmönnum Puma góðum og ekki tefla á tvær hættur um frekara samstarf milli sambandsins og íþróttavöruframleiðandans.