Í markaðshagkerfum heimsins hafa þróast viðteknar venjur um hvernig skuli standa að almenningsútboðum hlutabréfa. Ekki er marktækur munur á því hvernig er staðið að slíkum útboðum frá einu landi til annars.

Þegar íslenska ríkið seldi 35% hlut sinn í Íslandsbanka árið 2021 í almennu útboði voru slíkar venjur hafðar í hávegum. Með öðrum orðum: staðið var að því hlutabréfaútboði með sama hætti og gert hefur verið víðsvegar um heiminn gegnum tíðina og
gefist vel.

Enda var útboðið vel heppnað og leiddi til þess að 24 þúsund Íslendingar eignuðust hlut í bankanum. Engar gagnrýnisraddir, sem mark er á takandi, heyrðust um niðurstöður þessa útboðs. Rétt er að taka fram að fjöldi almenningsútboða á skráðum hlutabréfum í Kauphöllinni hefur átt sér stað síðan þá með sambærilegri niðurstöðu.

Sökum þess moldviðris sem stjórnmálamenn einsettu sér að þyrla upp í kjölfar lokaðs útboðs í Íslandsbanka ætla nú ráðamenn að ráðast í annað almennt útboð á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka – en núna með allt öðrum hætti en staðið hefur verið að
almennum útboðum til þessa.

Rétt er að halda því til haga að Ísland er ekki eina Evrópuríkið sem fékk eignarhlut í fjármálafyrirtækjum óumbeðið í hendurnar í kjölfar fjármálakreppunnar 2008. Stjórnvöld þessara ríkja hafa grynnkað á þeim eignarhlutum allar götur síðan með viðteknum venjum. En nú ætla íslensk stjórnvöld, í krafti þekkingar embættismanna í fjármálaráðuneytinu, að fara í slíkt útboð með allt öðrum hætti en til þessa hefur tíðkast.

Afleiðing þessa brölts verður einfaldlega sú að verðið sem íslenska ríkið fær í sinn hlut í útboðinu verður lægra en efni standa til.

Sérfræðingar Arion banka hafa gagnrýnt frumvarpsdrögin harðlega. Meðal þess sem bent er á að í stað þess að hafa tvær tilboðsbækur sem eru háðar upphæðum hvers tilboðs mega einstaklingar einungis gera tilboð í áskriftarbók A. Þetta þýðir að einyrkjar og aðrir sem ráða yfir einkahlutafélögum geta ekki gert tilboð fyrir nokkrar milljónir. Í stað þess að einn umsjónaraðili samræmi útboðið er öllum leyft að taka að sér söluumsjón.

Slíkt er fallið til þess að skapa glundroða. Í umsögn Arion banka um frumvarpsdrögin segir:

„Sú framkvæmd sem frumvarpið ráðgerir er hins vegar til þess fallin að vera óskipuleg þar sem margir og ólíkir söluaðilar munu bítast á um söluna og herja á sömu hópa fjárfesta án þess að lúta stjórn eins umsjónaraðila sem ber verkstjórnarábyrgð á framkvæmdinni gagnvart seljanda. Þá skapast sú hætta að skipuleg markaðssetning útboðsins fari forgörðum og fylgni við reglur verðbréfamarkaðar líði fyrir vikið.“

Þá fela frumvarpsdrögin í sér að þóknunartekjur útboðsaðila verði mun lægri en almennt hefur verið í sambærilegum útboðum á meginlandi Evrópu. Orðsporsáhætta sem felst í því að taka að sér söluumsjón og á svo afkáralegu útboði mun fæla fjármálafyrirtæki frá þátttöku.

Þá kemur fram í frumvarpinu að birta eigi lista yfir alla þátttakendur. Væntanlega verður listinn negldur upp af Tómasi Brynjólfssyni, starfandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis, á dyr Dómkirkjunnar morguninn eftir að niðurstaða útboðsins liggur fyrir. Það væri vel við hæfi.

Er ekki mál að linni? Það er ljóst að viðbrögð stjórnvalda við hinu mikla moldviðri digrustu vindbelgja íslenskra stjórnmála við síðasta útboði Íslandsbanka hafa keyrt um þverbak. Að langstærstum hluta var sú gagnrýni innistæðulaus en samt sem áður eru stjórnvöld að reyna að teikna upp útboð sem kemur til móts við hana.

Viðbrögð starfsmanna fjármálaráðuneytisins við tillögu Bankasýslunnar um skilvirka og hentuga leið fyrir ríkið til þess að draga úr eignarhlut sínum í Íslandsbanka á ásættanlegu verði með því að virkja og taka þátt í endurkaupaáætlun stjórnar bankans segir meira en mörg orð um á hvaða vegferð þeir eru.

Frumvarpsdrögin útiloka slíkt og viðbrögð starfsmanna fjármálaráðuneytisins voru á þá vegu að þótt þetta sé skilvirk leið þá sé hún til þess fallin að grafa undan tiltrú almennings á útboðinu.

Er það virkilega?

Nei er svarið. Aftur á móti eru frumvarpsdrögin til þess fallin að gera alla þá sem hafa einhverja þekkingu á verðbréfaviðskiptum fráfallna þátttöku í útboðinu. Flautuþyrlarnir og vindbelgirnir sem höfðu hæst að loknu síðasta útboði Íslandsbanka munu reynast ríkissjóði dýrkeyptir þegar allt verður yfirstaðið og það er á ábyrgð þeirra sem á þá hlusta.

Þessi leiðari birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 27. mars 2024.