Fátt bendir til þess að flokksráðsfundur Sjálfstæðismanna um liðna helgi verði til þess að flokkurinn nái aftur vopnum sínum fyrir komandi kosningar. Fleira þarf að koma til svo að það gerist.
Fátt bendir til þess að flokksráðsfundur Sjálfstæðismanna um liðna helgi verði til þess að flokkurinn nái aftur vopnum sínum fyrir komandi kosningar. Fleira þarf að koma til svo að það gerist.
Í raun gerðist fátt markvert á fundinum annað en það að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður flokksins, sagðist íhuga stöðu sína og lét í veðri vaka að hann kynni að segja af sér formennsku á landsfundi flokksins í febrúar á næsta ári.
Líklegt er að það verði raunin. En eru formannsskipti líkleg til að styrkja stöðu flokksins og gera honum kleift að ná stuðningi þeirra kjósenda sem hafa snúið baki við flokknum? Efast má um það, sérstaklega ef næsti leiðtogi flokksins kemur úr þingliðinu.
Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að þingmenn flokksins hafa í umtalsverðum mæli misst trúverðugleika sinn í augum borgaralega sinnaðra kjósenda þegar kemur að ráðdeild í ríkisfjármálum. Ríkissjóður hefur verið rekinn með viðvarandi halla allar götur frá árinu 2019. Ríkisútgjöld hafa aukist um hátt í fimm hundruð milljarða frá því að Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn tóku við völdum veturinn 2017. Engin raunveruleg áform um aðhald er að finna í ríkisfjármálaáætlun – þar er einungis að finna markmið um að auka útgjöldin ekki jafn hratt og undanfarin ár.
Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa verið viljugir þátttakendur í þessu útgjaldaaustri og hvorki þeir né þingmenn flokksins hafa gert athugasemdir við þessa afleitu stefnu í ríkisfjármálum og talað fyrir aðhaldi. Á sama tíma virðast engar takmarkanir á hugmyndaauðgi stjórnmálamanna þegar kemur að aukningu ríkisútgjalda. Stofnun nýrrar ríkisóperu, margföldun listamannalauna, þjóðarhöll og stofnun þjóðarsjóðs sem á að byggja upp með arðgreiðslum ríkis-fyrirtækja sem fram til þessa hafa runnið í hítina, niðurgreiðslur á rafmagnsbílakaupum stórfyrirtækja og gjaldfrjálsar máltíðir handa grunnskólanemum. Hér eru aðeins nefnd nokkur dæmi – af nægu er að taka. Síðan furða menn sig á því að verðbólguvæntingar á markaði séu þrálátlega háar.
Gísli Freyr Valdórsson, stjórnandi hlaðvarpsins Þjóðmál, fékk þá Brynjar Níelsson og Óla Björn Kárason til að ræða stöðu flokksins í síðustu viku. Þeir Brynjar og Óli Björn voru sammála um að flokkurinn hefði misst tengsl og talsamband við verktaka og aðra þá sem eru með rekstur. Þetta er vafalaust rétt. Þetta er einmitt fólk sem veit hvað rekstur gengur út á og gerir sér grein fyrir að viðvarandi hallarekstur og skuldasöfnun er ósjálfbær til lengri tíma litið og leiðir ávallt til aukinnar skattheimtu og hærri vaxta en ella.
Í stað þess að tala fyrir þessum sjónarmiðum hafa margir þingmenn flokksins reynt að verja þessa stefnu og benda á að svart sé í raun og veru hvítt. Það fælir kjósendur sem vita betur frá flokknum og grefur undan trúverðugleika flokksins í efnahagsmálum.
Í nýlegri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðu efnahagsmála hér á landi kemur fram að ekkert ríki í Evrópu hafi stuðst við jafn þensluhvetjandi stefnu í ríkisfjármálum í góðæri undanfarinna ára og Ísland, að Ungverjalandi undanskildu. Í umsögn fjármálaráðs um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar kemur fram að staða ríkisfjármála sé með öllu ósjálfbær og þó svo að staða ríkissjóðs sé enn sem komið er ágæt þá er ljóst að vandinn verður erfiður viðureignar þegar hægari taktur í efnahagskerfinu fer að hafa áhrif á skatttekjur ríkissjóðs.
Gengið verður til alþingiskosninga á næsta ári. Það eina sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa til málanna að leggja er enn frekari aukning útgjalda og hærri skattar. Gegn þessu verður Sjálfstæðisflokkurinn að berjast með kjafti og klóm. En til þess þarf trúverðugleika og eina leiðin til að byggja hann upp á ný er að gangast við þeim mistökum sem hafa verið við stjórn efnahagsmála og rétta svo kúrsinn á ný.
Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist í blaðinu sem kom út 4. september 2024.