Með innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja CSRD sem væntanlega tekur gildi á Íslandi 1. janúar 2025 munu koma mjög ítarlegar kröfur um sjálfbærniupplýsingagjöf.

Samhliða innleiðingu á CSRD þá munu taka gildi 12 sjálfbærniskýringarstaðlar en þeir heita European Sustainability Reportings Standards eða (ESRS). Gera má ráð fyrir að fleiri skýringastaðlar muni bætast við á komandi árum. ESRS skýringarstaðlarnir eru ein stærsta breytingin á einu bretti sem við höfum séð í ársreikningagerð og upplýsingagjöf fyrirtækja síðan alþjóðlegir reikningsskilastaðlar eða IFRS tóku gildi 2005.

Síaukin áhersla á sjálfbærniupplýsingagjöf

Sjálfbærniupplýsingagjöf er mikið áhersluatriði hjá öllum eftirlitsaðilum um allan heim.

Ennfremur eru hagsmunaaðilar s.s. fjárfestar, eftirlitsaðilar, starfsfólk, stéttarfélög og lánastofnanir, sífellt að kalla á meiri upplýsingar af því tagi.

Með CSRD kemur krafa um að afla óháðrar staðfestingar á sjálfbærniupplýsingum.

Til að byrja með verður óháða staðfestingin í formi „limited assurance“ eða takmörkuð vissa, en krafa um fulla endurskoðun (e. reasonable assurances)  á sjálfbærniupplýsingum mun koma þar strax á eftir og því verður aðlögunartímabilið stutt.

Til að geta hafið þá vegferð að láta endurskoða sjálfbærniupplýsingar þurfa fyrirtæki m.a. að fara gjörbreyta hvernig öflun gagna og vinna er tengt sjálfbærniupplýsingum.

Hingað til hafa mörg fyrirtæki verið með þetta sem hliðarverkefni en birt upplýsingar í samræmi við grein 66d í lögum um ársreikninga og hefur verið allur gangur á því hvernig framkvæmdin er á þeirri vinnu.

Óháð staðfesting á sjálfbærniupplýsingum

Tilgangurinn með endurskoðun sjálfbærniupplýsinga er að tryggja áreiðanleika upplýsingana og auka traust væntanlegra notenda á sjálfbærniupplýsingunum.  Það hefur mikla þýðingu fyrir hagsmunaaðila að sjálfbærniupplýsingar séu staðfestar af óháðum aðilum.

Ég vil þó leggja áherslu á að þrátt fyrir að óháð staðfesting liggi fyrir á sjálfbærniupplýsingar félagsins þá leysir það ekki stjórnendur og stjórnir fyrirtækja undan ábyrgð þeirra á gerð og framsetningu sjálfbærniupplýsinga

Áritun endurskoðanda er staðfesting á því að þær sjálfbærniupplýsingar sem koma fram séu áreiðanlegar og að allar nauðsynlegar upplýsingar komi fram í sjálfbærniupplýsingagjöfinni og að upplýsingarnar séu í samræmi við viðeigandi regluverk sem verður ESRS, sem innleitt verður sem hluti af CSRD.

Hvað þurfa fyrirtæki að gera?

Í ljósi síaukinna krafna er óhjákvæmilegt fyrir fyrirtæki að bregðast við og búa sig undir að mæta auknum kröfum. Það gengur ekki lengur að hafa sjálfbærniupplýsingagjöf sem hliðarverkefni og skylduverkefni einu sinni ári, heldur þarf öflun sjálfbærniupplýsinga að gerast jafnt og þétt yfir árið. Sjálfbærniupplýsingar verða jafn mikilvægar og fjárhagsupplýsingar eru í dag.

Ein helsta áskorunin verður án efa að formfesta ferla þvert á allt fyrirtæki, þar sem innleiða þarf þessar breytingar í öllum deildum fyrirtækisins. Aðferðafræði og kröfur um endurskoðun á sjálfbærniupplýsingum eiga eftir að þróast áfram og ljóst er að framundan er heilmikil vinna fyrir fyrirtæki og endurskoðendur.

Byrja þarf sem fyrst að framkvæma tvöfalda mikilvægisgreiningu þar sem fyrirtæki greina þýðingarmikil áhrif sín á sviði sjálfbærni, þá þurfa fyrirtæki að gera grein fyrir stefnu, markmiðum, aðgerðum og mælikvörðum samkvæmt ESRS stöðlunum.

Þetta er alltaf fyrsta skrefið og i kjölfarið af þessari vinnu er skoðað hvaða ESRS staðlar eru viðeigandi og hverjir ekki.

Kröfur endurskoðunar

Við endurskoðun sjálfbærniupplýsinga fær endurskoðandi félags nægjanlega vissu (e. reasonable assurance), sem nauðsynlegt er til áritunar, með því að afla nægjanlegra og viðeigandi endurskoðunargagna. Hér mun líklega reyna mest á fyrirtækin því þau þurfa að geta framreitt áreiðanleg gögn sem eru tæk til skoðunar og staðfestingar.

Fyrirtækin þurfa strax að undirbúa gögn sem eru að þeim gæðum sem hægt er að endurskoða enda væri það óheppilegt fyrir fyrirtæki ef endurskoðandi getur ekki undirritað áritun endurskoðanda á sjálfbærniupplýsingarnar vegna skorts á gögnum.

Fyrirtæki verða að innleiða sjálfbærniupplýsingagjöf inn í sitt innra eftirlit, aðlaga upplýsingakerfin og huga strax að söfnun gagna sem getur í einhverjum tilvikum falið í sér töluvert flækjustig.

Fyrirtæki þurfa að velta fyrir sér spurningum svo sem:

  • Hversu áreiðanleg eru þau gögn sem eru tiltæk?
  • Hvernig getum við afla viðeigandi gagna?
  • Eru þau gögn sem við erum með nákvæm, rekjanleg og tæk til skoðunar fyrir endurskoðendur?

Að byrja tímanleg að undirbúa sig er nauðsyn!

Hjá PwC höfum við rekið okkur á það að þó að fyrirtæki hafi reynslu í að vinna að loftslagsbókhaldi eða annarri upplýsingagjöf á sviði sjálfbærni þá eru upplýsingar ekki jafn “þróaðar” í samanburði við fjárhagsupplýsingar. Ljóst að lyfta þarf grettistaki til að koma upplýsingagjöf í sjálfbærni á sama stað og fjárhagsupplýsingar.

Í dag eru allir á byrjunarreit enda kröfurnar rétt að koma fram. Þeir sem byrja fyrr að undirbúa sig munu njóta góðs af því umfram aðra, bæði til skammstíma og til langstíma. Endurskoðun sjálfbærniupplýsinga þeirra sem eru vel undirbúnir verður að öllum líkindum bæði skilvirkari og ódýrari en fyrir þá sem draga lappirnar.

Horft til framtíðar þá er það mat flestra að öflun og framsetning sjálfbærniupplýsinga verður jafn sjálfsagður hlutur af rekstri fyrirtækja og endurskoðun fjárhagsupplýsinga.

Höfundur er löggiltur endurskoðandi hjá PwC.