Það er ekki óvarlegt að halda því fram að hér á landi sé útlitið bjart. Gera má ráð fyrir stöðugum hagvexti á næstu árum, drifnum áfram af vexti útflutnings fyrst og fremst, ásamt einkaneyslu. Þá bendir flest til þess að tekist hafi vel til við að vinda ofan af þeim efnahagsáföllum sem dunið hafa á landinu frá árinu 2019 og hagkerfið nokkuð vel í stakk búið til að takast á við möguleg efnahagsáföll framtíðarinnar. Þó að útlitið sé gott og staðan ekki sem verst má hins vegar alltaf gera betur.

Sagt er að vinur sé sá sem til vamms segir og gjarnan af nógu að taka þegar kemur að íslenskum efnahag. Árlega gefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) út skýrslu um íslenskt efnahagslíf þar sem dregið er fram hvað hefur gengið vel og hvar tækifæri felast til úrbóta. Á þessu varð engin breyting þetta árið. Ýmis misspennandi verkefni bíða þannig hagstjórnaraðila á komandi misserum, hvort sem er á sviði ríkisfjármála, peningastefnu eða vinnumarkaðar, ef ætlunin er að bregðast við athugasemdum sjóðsins.

Raunar er það svo að fæstar athugasemdir sjóðsins ættu að koma ráðamönnum landsins á óvart, segja má að um fremur endurtekið efni sé að ræða. Endurheimta þurfi svigrúm í opinberum fjármálum, virkja fjármálareglur laga um opinber fjármál á ný, tryggja kjölfestu verðbólguvæntinga og verðstöðugleika, og koma þurfi böndum á verðþróun á húsnæðismarkaði. Síðast en ekki síst, að fjölga þurfi efnahagslegum undirstöðum íslenska hagkerfisins, einkum og sérílagi með því að létta á regluverki í kringum sprotafyrirtæki ásamt því að tryggja að launaþróun taki mið af framleiðniþróun. Gömul saga og ný.

Það má vera ljóst að brýnt er að endurheimta svigrúm opinberra fjármála til að takast á við efnahagsáföll framtíðarinnar með því að draga úr hallarekstri hins opinbera og stöðva skuldasöfnun. Vandi ríkisfjármálanna er þó ekki nýr af nálinni heldur er um undirliggjandi ójafnvægi að ræða sem var tekið að myndast fyrir heimsfaraldur, enda hefur skort á aðhald í uppsveiflum og tímabundnum tekjum gjarnan ráðstafað til varanlegra útgjalda. Bættar efnahagshorfur einar og sér munu því ekki duga til að rétta úr kútnum að sinni. Tryggja þarf að óvænt tekjuaukning renni framvegis fremur til niðurgreiðslu skulda en nýrra útgjalda og búa þannig í haginn fyrir tíma þegar verr árar. Í þessu samhengi hafa Samtök atvinnulífsins löngum talað fyrir upptöku útgjaldareglu samhliða þeim fjármálareglum sem fyrir eru.

Að sýna ábyrgð í verki

Í skýrslu AGS er sérstaklega bent á að launakostnaður hins opinbera sé talsvert meiri hér á landi en gengur og gerist meðal þróaðra ríkja og þar séu vafalaust tækifæri til hagræðingar. Áætlanir hins opinbera gera ráð fyrir því að aukning launakostnaðar verði afar hófleg í sögulegu tilliti. Lítið má út af bregða í þeim efnum ef ætlunin er að tryggja jafnvægi í ríkisrekstri og á vinnumarkaði sem og stöðugt verðlag. Mikilvægt er að hið opinbera sýni ábyrgð í verki með því að tryggja að launastefnunni, sem mótuð verður á almennum markaði í komandi kjaraviðræðum, verði fylgt eftir þegar kjarasamningar losna á opinberum vinnumarkaði.

Ljóst er að kjarasamningar munu hafa mikið að segja um framvindu efnahagsmála. Í skýrslu AGS er varað við því að samið sé um launahækkanir sem samrýmast ekki markmiðum um verðstöðugleika enda geti það orðið til þess að aukin verðbólga verði þrálát og kalli á frekari viðbrögð af hálfu Seðlabankans með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á efnahagsumsvif. Seðlabanki Íslands hefur tekið í sama streng. Launahækkanir hér á landi hafa í lengri tíma verið langt umfram framleiðnivöxt með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið í formi meiri verðbólgu og hærri stýrivaxta en ella. Hagfelld ytri skilyrði, svo sem mikill viðskiptakjarabati, hefur dregið úr verðbólguáhrifum þessarar þróunar á seinustu árum. Ekkert bendir til þess að slíkt endurtaki sig á komandi misserum.