Meðan Íslendingar jöfnuðu sig eftir helgina á frídegi verslunarmanna gengu miklar lækkanir yfir hlutabréfamarkaði erlendis.
Þessar lækkanir voru þó fljótar að ganga til baka að mestu og tala gárungar því um þetta sem stystu kreppu sögunnar. Íslenskir fjárfestar þurftu þó lítið að óttast um að áhrifin myndu smitast yfir á markaðinn hér og þurrka út hækkanir á gengi hlutabréfa, þar sem það voru engar hækkanir sem hægt var að þurrka út.
Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur verið í hálfgerðu skötulíki í um tvö ár en þó eru uppi vonir um að bjartari tíð sé í vændum.
Hrafnarnir vonast svo sannarlega fyrir hönd Magnúsar Harðarsonar, forstjóra Kauphallarinnar, fjárfesta og í raun allrar íslensku þjóðarinnar að þær vonir verði að veruleika.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.