Um daginn stakk ein vinkona mín upp á að halda Zoom-fund til að fagna afmæli annarrar úr vinkvennahópnum, sem hefur ákveðið að vera að heiman á fimmtugsafmælinu. Mér fannst þetta um það bil versta hugmynd sem ég hefði heyrt.
Annars vegar ber Zoom-fyrirkomulagið ekki sautján skálandi konur sem allar gleyma að slökkva á hljóðnemanum (við höfum reynt þetta) og svo er hitt að ljóminn fór svolítið af fjarfundum í þessum blessaða faraldri.
En nú get ég bara talað fyrir mig og vissulega hafa ýmsir tekið því fagnandi að geta fundað úr fjarlægð og jafnvel unnið hvar sem er, fjarri vinnustaðnum og -félögunum. Oft hentar slíkt fyrirkomulag bæði starfsfólki og vinnuveitanda.
Þriðjungur fyrirtækja í Viðskiptaráði svaraði könnun um þetta í vor þannig að þau hefðu þegar komið sér upp fjarvinnustefnu og rúm 10% sögðust vinna að gerð slíkrar stefnu. Fyrirtæki sem taka þetta alla leið ráða án staðsetningar og skiptir þá engu hvort starfsmaðurinn er í Þýskalandi eða á Þórshöfn.
Ekki eru allir jafnhressir með fjarvinnuna. Elon Musk komst í fréttirnar í síðustu viku eftir að hann sendi starfsmönnum sínum skorinorðan tölvupóst. Skilaboðin voru þau að allir starfsmenn Teslu ættu að verja að minnsta kosti 40 tímum á vinnustaðnum á viku og því hærra settir sem þeir væru, því sýnilegri þyrftu þeir að vera.
Og til að ekkert færi nú á milli mála, tók hann fram að vinnustaðurinn væri þar sem alvöruvinnufélagar þeirra héldu sig, en ekki einhver fjarlæg gerviskrifstofa. Starfsfólk sem ekki mætti teldist hafa sagt upp.
Af sinni alkunnu hógværð bætti Musk svo við að Tesla hefði og myndi halda áfram að skapa og framleiða mestu og bestu vörur jarðar. Það verði ekki gert með því að hringja sig inn.
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði