Eins og hrafnarnir og blaðamenn Viðskiptablaðsins bentu á í aðdraganda kosninga voru engar líkur á því að meirihlutanum í borginni tækist að standa við margendurtekin kosningaloforð sín um leikskólapláss fyrir yngstu börnin næsta haust.
Eins og Viðskiptablaðið benti á fyrir kosningarnar byggðu þau loforð á heldur hæpnum forsendum. Jafnvel þó að borginni tækist að standa við áætlanir sínar um að fjölga leikskólaplássum – sem ekki hefur gengið hingað til – mun enn á annað þúsund barna í borginni vanta leikskólapláss við lok kjörtímabilsins árið 2026 sökum væntrar íbúafjölgunar. Þrátt fyrir fyrirsjáanleika þessa vanda er enginn skortur á skapandi skýringum embættismanna borgarinnar á stöðu mála. Þannig hafa hrafnarnir ákaflega gaman af því þegar Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs borgarinnar, segir ástandið í leikskólamálum í borginni skýrast af innrás Rússa í Úkraínu fyrr á árinu.
Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 11. ágúst 2022.