Síminn seldi Mílu í október í fyrra. Söluverðið var að allra mati mjög gott. Samkvæmt kaupsamningnum átti Síminn að fá um 44 milljarða króna í reiðufé og 15 milljarða króna í formi skuldabréfs til þriggja ára.
Í kjölfarið hófst einhver óskiljanlegur sirkus hjá stjórnarandstöðunni á Alþingi, þá helst Samfylkingunni, um að salan setti fjarskiptaöryggi í hættu. Allt var þetta á misskilningi byggt, rétt eins og hugmyndafræðin sem þetta ágæta fólk aðhyllist.
***
Samkeppnisstofnunin sagði fljótlega í kjölfar viðskiptanna að tilefni væri til að skoða kaupin á grundvelli samrunaákvæða samkeppnislaga og kallaði eftir samrunatilkynningu vegna kaupanna. Hún barst 20. janúar og stofnunin dundaði sér í hálft ár við að skoða málið.
***
Svo komst stofnunin að niðurstöðu. Hún hafði aðallega áhyggjur af því að kaupsamningurinn fæli í sér áframhaldandi viðskipti Símans við Mílu í 20 ár.
Síðastliðinn föstudag sömdu Síminn og Ardian svo um breytingar á samningnum í von um að sefa áhyggjur eftirlitsins, þar sem meðal annars er lagt til að heildsölusamningurinn verði til 17 ára í stað 20. Samhliða var samið um 5 milljarða króna lækkun kaupverðsins, enda forsendur hins upphaflega samnings brostnar.
Minni samkeppni nú en eftir viðskiptin
Viðskiptablaðið ræddi við Orra Hauksson um heildsöluhluta samningsins í síðustu viku:
„Við höfum bent á að í núverandi stöðu hefur Síminn mikinn hvata til að versla við Mílu vegna eignarhaldsins. Við teljum að eignarsamband sé alltaf sterkara heldur en hreinræktað viðskiptasamband á milli óskyldra aðila. Þessar áhyggjur eru því talsvert yfirdrifnar að okkar mati.“
„Sala á Mílu gerist auðvitað ekki nema ef það fylgi henni viðskipti við Símann. Annars er ekki hægt að selja Mílu.“
Þetta er einmitt mergur málsins. Síminn er langstærsti viðskiptavinur Mílu og það er ekkert að selja ef viðskiptin fylgja ekki með. Það er ótrúlegt, alveg óskiljanlegt, að samkeppnisstofnunin skilji þetta ekki.
***
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, sagði sama dag í samtali við Morgunblaðið að eignarhald Símans á Mílu hefði slæm áhrif á markaðinn og hann vonaði að kaupin gengju í gegn.
„Samkeppniseftirlitið hefur haft orð á því lengi að Síminn þurfi að selja Mílu. Ég vona svo sannarlega að það sé hægt að komast að samkomulagi milli Ardians, Símans og Samkeppniseftirlitsins svo að þessi sala fari fram, það er best fyrir Ísland.“
Það er ekki oft sem keppinautar á markaði sjá veröldina með sömu augun. En bæði Orri og Heiðar er ósammála sjónarmiðum samkeppnisstofnunarinnar.
Er ekki kominn tími til að reikna?
Öll viljum við að samkeppni sé sem virkust á Íslandi. Stærð hagkerfisins og fjarlægð frá mörkuðum minnkar samkeppnina óhjákvæmilega. En það er ekki nokkrum til gagns að starfrækja stofnun sem aldrei veit neitt og aldrei skilur neitt og láta hana hafa alvald í samkeppnismálum á Íslandi.
***
Aftur og aftur sýnir stofnunin að hún skilur ekki viðskipti. Enda hafa fæstir starfsmenn hennar komið nálægt neinu sem heitir rekstur, viðskipti og kaup og sala á fyrirtækjum.
Oftar en ekki þegar stofnunin sektar fyrirtæki – með réttu eða röngu – lendir sektin á viðskiptavinunum. Jú. Þau eru einmitt á fákeppnismarkaði og oft eru öll stóru fyrirtækin á markaðnum sektuð um leið.
Það væri verðugt verkefni að reikna út skaðann sem samkeppnisstofnunin hefur valdið neytendum, lífeyrisþegum og almenningi á Íslandi.
Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 21. júlí 2022.