Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri hefur boðið sig fram til forseta.

Helsta tilkall hennar til embættisins virðist vera að hún hafi alist upp í blokk í Árbænum og farið í sveit á sumrin. Hrafnarnir telja þetta vísbendingu um að raunverulegt erindi Höllu sé að vekja á sér athygli og langtímamarkmiðið sé sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir næstu alþingiskosningar. Búseta í blokkaríbúð í Árbænum virðist vera ávísun á frama innan flokksins eins og Dagur B. Eggertsson hefur sýnt og sannað.

Annars vekur það athygli að samkvæmt heimasíðu Orkustofnunar er Halla enn starfandi orkumálastjóri þrátt fyrir framboðið. Samkvæmt síðunni starfar Karen Kjartansdóttir þar einnig að samskiptum í verktöku. Karen starfar einnig að framboði Höllu og hefur meðal annars sent fjölmiðlum tilkynningar um þau mál öllsömul. Helga Þórisdóttir er annar ríkisforstjóri sem býður sig fram til forseta en fram kemur á heimasíðu Persónuverndar, stofnunarinnar sem hún leiðir, að hún sé í leyfi frá störfum fram að sumri.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 10. apríl 2024.

Eftirskrift: Daginn eftir að pistillinn birtist fyrst upplýsti Morgunblaðið að Halla Hrund væri komin í leyfi frá störfum vegna forsetaframboðsins. Þess er þó ekki getið á heimasíðu Orkustofnunar.