Fyrir rúmum 4 árum skrifaði ég grein um að rétt væri að hefjast handa við að hækka lífeyrisaldur. Óhætt er að segja að ekki hafi allir verið sammála mér og mesta andstöðu hef ég skynjað hjá þeim sem nú þegar eru komnir á lífeyrisaldur.
Umræða um hækkandi lífaldur og þá fullyrðingu fræðimanna að börn sem fæðist um þessar mundir eigi 50% líkur á að ná 105 ára aldri leiðir mig til vangaveltna um erfðir. Í dag er meðalaldur mæðra við fæðingu fyrsta barns um 28 ár. Fæðingartíðni við 40 ára aldur og hærri er undir 5%. Þannig eru meira en 95% barna hverra mæður eru undir 40 ára aldri þegar þau fæðast.
Ekki liggja fyrir tölur um aldur feðra. Miðað við dánarlíkur 2014 til 2018, sem tryggingastærðfræðingar nota, eru lífslíkur karla 80 ár og kvenna 84 ár. Þannig að leiða má sterkum líkum að því að meðalaldur erfingja á Íslandi sé rúmlega 50 ár. Ef fólk deyr að meðaltali 82 ára þá væri elsta barn viðkomandi 54 ára að meðaltali og elsta barnabarn hins látna 26 ára. Þessar tölur eru líklegri til að hækka en lækka á næstu áratugum.
Hverjir þurfa arf?
Tekjudreifing og dreifing hreinnar eignar í þjóðfélaginu er ójöfn eftir aldri og unga fólkið er þar á botninum á báða mælikvarða. Þetta er eðlilegt þar sem flestir hefja starfsferilinn án þess að hafa mikið ef eitthvað á milli handanna, margir með ekkert nema námslán á skattframtalinu.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru laun 29 ára og yngri um 20% lægri en þeirra sem eru á milli 50 og 59 ára aldurs og munurinn er sexfaldur ef litið er til eignastöðu þessara hópa. Því kemur það upp í hugann að breyta lögum þannig að barnabörn erfi frekar en börn.
Samkvæmt núgildandi lögum um erfðir erfir eftirlifandi maki, ef til staðar, 1/3 og eftirlifandi börn 2/3. Að meðaltali er fólk á sextugsaldri langt komið með að koma sér upp húsnæði og greiða mikið niður skuldir. Það er líka þannig að börn þeirra eru flutt eða við það að flytja að heiman og skuldsetja sig eftir mestu getu til að tryggja sér öruggt heimili.
Það er grunur undirritaðs að arfur kæmi þeim sem eru um 26 ára aldur miklu betur að notum heldur en þeim sem eru um 55 ára. Til dæmis mætti breyta lögum þannig að helmingur þess 2/3 hluta arfs sem fara ætti til barna, færi til barna þeirra barna.
Hægt er að útfæra þetta á nokkra vegu eftir smekk, en sú leið sem mér hugnast er að 2/3 hluti skiptist milli barna hins látna og helmingur hlutar hvers barns renni til barna viðkomandi ef hann/hún/hán á börn, annars heldur viðkomandi báðum helmingum.
Sá hópur sem yrði fyrir mestum missi við þessa breytingu er sú kynslóð sem höfundur tilheyrir en við höfum það að meðaltali mjög gott og gerðum vel að gæta að velsæld komandi kynslóða.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu í síðustu viku.