Virk endurgjöf er einn vannýttasti lykillinn að árangri vinnustaða. Hún getur stuðlað að góðri þróun vinnustaðar, í stað þess að hann þrjóskist bara við.

Í þessu samhengi horfi ég oft á gæðastarf vinnustaða, sem getur haft feykilega uppbyggileg áhrif á vinnustaði. Þó að gæðastjórnun sé víðtæk og á tíðum flókin þá er grunnhugsunin einföld. Hún felst í gæðahring Demings, þ.e. Plan – Do – Check – Act (PDCA). Verðmætasti parturinn í þessum gæðahring er að mínu mati að athuga hvernig gengur (Check) og síðan er brugðist við (Act).
ISO staðlar gera til að mynda kröfu um rýni stjórnenda þar sem tryggt er að ferlið er framkvæmt reglulega. Þannig hef ég séð hvernig rýni stjórnenda hafði umtalsverð áhrif á dýnamík vinnustaðar sem ég vann með. Í reynd umbreytandi áhrif. Eins og myndin með þessari grein sýnir er mikilvægt að líta á gæðahring Demings sem spíral. Því að með hverju Check – Act getur náðst verðmætur lærdómur sem stuðlar að vexti vinnustaðarins. Þannig stækkar spírallinn með hverri hringferð og vinnustaðurinn með.
En það er hægt að ganga lengra með þessa nálgun, þannig að virk endurgjöf verður hluti af menningu vinnustaðar. Menning verður ekki til á einni nóttu en ein leið til þess að hafa áhrif á menningu er að taka upp það sem ég kalla Plús Delta. Plús: Hvað hefur gengið vel og Delta: Hvar eru tækifæri til umbóta.
Ég kynntist Plús Delta fyrst þegar ég var að læra að verða jöklaleiðsögumaður, fyrir (hóst) nokkrum árum síðan. Það vakti undrun mína hvað ég lærði mikið og hratt á þessu stutta námskeiði. Eftir aðeins fjóra daga var ég búinn að læra vinnulag, fræðsluaðferðir og björgun þannig að ég hafði sjálfstraust til að taka fyrstu skrefin í krefjandi umhverfi. Lærdómi mínum var þó hvergi nærri lokið, en í starfi og á frekari námskeiðum hélt ég áfram að spíralast upp sem leiðsögumaður.
Í starfi mínu sem ráðgjafi gríp ég hvert tækfæri til þess að innleiða þetta vinnulag á vinnustöðum, með dýrmætum árangri. Samhliða slíkum æfingum er mikilvægt að huga að sálrænu öryggi, samskiptum og gróskuhugarfari þannig að fólki líði vel að gefa og fá endurgjöf. Að sama skapi er feikilega mikilvægt að brugðist sé við endurgjöf (Act) svo að fólk finni ástæðu til þess að taka þátt. Gott er að byrja smátt, sýna fram á árangur af svona æfingum og leyfa þeim síðan að vaxa organískt.
Með virkri endurgjöf verður til lærdómshringur sem styður við stöðugar umbætur og vöxt. Spurningin er einföld – ætlar þinn vinnustaður að þrjóskast eða þróast?
Höfundur er stjórnunarráðgjafi í breytingum hjá Viti i ráðgjöf.