Verkalýðshreyfingin hefur klifað á því að það sé nóg til á undanförnum árum. En er það svo? Af hverju er nákvæmlega nóg til?
Væntanlega er þarna átt við að það sé nóg af verðmætum til skiptanna. En mikilvægt er að hafa í huga að þau verðmæti eru ekki í eigu ríkisins. Þau eru í eigu þeirra sem verðmætin skapa. Þessi hugsun virðist verða framandi í huga sífellt fleiri stjórnmálamanna.
Það er áhugavert að lesa umsögn fjármálaráðs um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram á dögunum með ofangreint að leiðarljósi. Í stuttu máli er umsögn fjármálaráðs á þá leið að staða ríkisfjármála sé með öllu ósjálfbær þó svo að staða ríkissjóðs sé enn sem komið er ágæt.
Ósjálfbærni ríkisfjármálanna stafar af því að stjórnvöld drógu aldrei saman seglin eftir að heimsfaraldurinn rann sitt skeið á enda – þau gáfu í. Það sem átti að vera tímabundin útgjaldaaukning er orðin varanleg.
Í umsögninni segir að í nágrannaríkjunum séu ríkisútgjöld á svipuðu róli og þau voru fyrir heimsfaraldurinn. Hér á landi er þessu þveröfugt farið. Þau hafa bara haldið áfram að aukast. Þar segir: „Svigrúmið sem myndaðist þegar dró úr kostnaði við aðgerðir tengdar Covid-19 var að hluta eytt í ný útgjöld. Af þeim sökum eru útgjöld hins opinbera í framlagðri fjármálaáætlun hærri en þau voru fyrir heimsfaraldurinn.“
Þetta er auðvitað eins óábyrg stjórn ríkisfjármála og hugsast getur. Þrátt fyrir viðvarandi hallarekstur hefur orðið gríðarleg aukning á ríkisútgjöldum á undanförnum árum. Útgjöldin námu ríflega 800 milljörðum og fjárlög gera ráð fyrir að þau verði um 1500 milljarðar í ár. Fjárlagaáætlunin gerir enn fremur ráð fyrir frekari aukningu ríkisútgjalda á næstu árum. Þetta ástand er ósjálfbært með öllu eins og fjármálaráð bendir á.
Eins og Warren Buffet benti á sínum tíma þá er það ekki fyrr en í útfalli öldunnar að í ljós kemur hverjir það voru sem syntu naktir í flæðarmálinu.
Eins og segir í umsögninni er ákaflega mikilvægt að ríkissjóður sé rekinn með afgangi á þenslutímum eins og ríkt hafa undanfarin ár í efnahagslífinu og svigrúmið notað til þess að grynnka á skuldum. Núverandi stefna í ríkisfjármálum ýtir undir þenslu, grefur undan viðskiptajöfnuði og dregur úr svigrúmi ríkissjóðs til þess að mæta óvæntum útgjöldum í framtíðinni. Í umsögninni segir:
„Ráðið telur að í ljósi grunngildis um stöðugleika hefði átt að nýta tekjuauka umfram fyrri áætlanir betur en gert er í fjárlögum 2023 til að bæta afkomu hins opinbera enn frekar á yfirstandandi ári, í stað þess að sæta færis og ráðstafa honum í aukin útgjöld. Með því móti hefði betur verið stutt við peningamálastjórnina og dregið úr vexti þjóðarútgjalda og viðskiptahalla. Þörfin á stuðningi við peningamálastjórnina er mikilvæg á meðan þjóðhagslegur kostnaður við að fresta og draga úr ýmsum ríkisútgjöldum er lítill í samanburði við þann kostnað sem hlýst af ónógum stuðningi.“
Því miður var þetta tækifæri nýtt af stjórnvöldum og allar líkur eru á því að það sé runnið úr höndum stjórnvalda. Háir raunvextir eru farnir að bíta á efnahagslífið og ljóst er að hagvöxtur á næstu misserum verði að öllu öðru óbreyttu lægri en hann hefur verið á þessum þenslu- og verðbólgutímum sem eru að renna sitt skeið á enda. Það mun draga úr skatttekjum ríkissjóðs sem svo gerir stöðu ríkissjóðs enn ósjálfbærari. Eins og Warren Buffet benti á sínum tíma þá er það ekki fyrr en í útfalli öldunnar að í ljós kemur hverjir það voru sem syntu naktir í flæðarmálinu.
Verulegur niðurskurður á ríkisútgjöld og hagræðing í ríkisrekstrinum er óumflýjanleg. Samt sem áður virðist vera þverpólitísk sátt um það á Alþingi að horfast ekki í augu við þá staðreynd. Það eina sem stjórnarandstaðan hefur til málanna að leggja í þessum efnum er að auka útgjöld enn frekar og skattleggja ímyndaða tekjustofna eða ganga svo langt í skattlagningu að það grafi undan verðmætasköpun í hagkerfinu.