Okkur fjölgar og við eldumst. Ýmislegt bendir til að við munum brjóta 400 þúsund manna múrinn á næstunni og hlutfallsleg fjölgun langmest í hópi eldra fólks. Það er jákvætt að við verðum eldri og að okkur fjölgar en þetta hefur ýmsar afleiðingar.
Árið 2023 voru þeir sem eru 80 ára og eldri um 5% af íbúum landsins, en eftir 20 ár er búist við að þeir verði tvöfalt fleiri. Þessi mikla fjölgun kallar á aukna þjónustu og fleiri hjúkrunarrými. Samkvæmt spám þarf að bæta við einu nýju hjúkrunarheimili á hverju ári til að mæta þörfinni.
Okkur vantar fólk
Umræðan um skort á heilbrigðisstarfsfólki og þær áskoranir sem því fylgja hefur verið áberandi á undanförnum árum. Reglulega berast fréttir um rekstrarvanda heilbrigðisþjónustu þar sem skortur á hjúkrunarfræðingum leiðir til lokunar á rýmum þegar frekar ný ættu að vera opnuð. Þetta er óásættanlegt þar sem slíkt álag ógnar velferð heilbrigðisstarfsfólks, öryggi skjólstæðinga og getu kerfisins til að veita þjónustu af þeim gæðum sem gerðar eru kröfur til.
Heilbrigðisstarfsfólk er burðarásinn í mannafla hjúkrunarheimila. Þar gegna hjúkrunarfræðingar afar veigamiklu hlutverki. En hér er vandi þar sem Ísland stendur frammi fyrir skorti á hjúkrunarfræðingum og fjórði hver yfirgefur fagið innan fimm ára frá útskrift og fer að gera eitthvað annað.
Alþjóðlegt vandamál
Heilbrigðiskerfi heimsins standa frammi fyrir miklum áskorunum vegna skorts á heilbrigðisstarfsfólki. Þetta er því ekki aðeins innlent vandamál heldur alþjóðlegt. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur vakið athygli á þessu og lagt áherslu á mikilvægi þess að finna lausnir. WHO geldur varhug við því að efnameiri og fjölmennar þjóðir laði til sín hjúkrunarfræðinga frá minna þróuðum löndum, en viðurkennir rétt hjúkrunarfræðinga að leita sér að betri lífsgæðum með störfum í öðrum löndum en heimalandi. Þessi staðreynd gleymist oft í umræðu um spekileka.
Ísland er í samanburði við önnur ríki í smáþjóð og í samhengi hlutanna skiptir litlu hversu marga erlenda hjúkrunarfræðinga Ísland ræður til sín. WHO gaf út siðaregluskrá með það að markmiði að stuðla að siðferðilegri og sanngjarnri ráðningu heilbrigðisstarfsfólks á alþjóðavísu. Lykilþættir úr siðaregluskránni eru sjálfbærni heilbrigðiskerfa, réttindi heilbrigðisstarfsfólks þar sem áhersla er lögð á rétt hjúkrunarfræðinga að flytja milli landa í leit að betri tækifærum, samvinna milli ríkja, og mikilvægi gagnsæis þar sem allt ráðningarferlið er uppi á borðum.
Erlendir hjúkrunarfræðingar
Hjúkrunarfræðingar hafa þann kost að starfa hvar sem er í heiminum og hefur hjúkrunarfræðingum af erlendu þjóðerni sem starfa hér á landi fjölgað talsvert síðustu ár sem best sést á útgefnum hjúkrunarleyfum, en á árunum 2019 til 2023 voru 25% útgefinna leyfa til handa erlendum hjúkrunarfræðingum.
Rannsókn Nuffield Trust í Bretlandi sem er sjálfstæð rannsóknarstofnun, leiddi í ljós að hjúkrunarfræðingar frá löndum utan Evrópu eins og Indlandi og Filippseyjum, eru líklegri til að starfa lengur í breska heilbrigðiskerfinu en kollegar þeirra frá ESB-löndum eða Bretlandi. Þótt frekari rannsóknir séu nauðsynlegar benda niðurstöðurnar til minni starfsmannaveltu meðal erlendra hjúkrunarfræðinga. Samkvæmt skýrslunni er meðal starfsaldur þrítugs hjúkrunarfræðings 6 ár hjá ESB-borgurum, 9 ár hjá breskum og 12 ár utan Evrópu.
Filippseyjar standa afar framarlega þegar kemur að menntun hjúkrunarfræðinga og er hluti af stefnu stjórnvalda beinlínis að menntakerfið undirbúi hjúkrunarfræðinga fyrir störf utan eyjanna. Gögn frá Philippine Overseas Employment Administration (POEA) sýna að verulegur hluti nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga er ráðinn til erlendra starfa, og bæði Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) og fjölmörg fræðirit benda á að þessi útflutningsstefna sé lykilþáttur í menntun hjúkrunarfræðinga á Filippseyjum.
Undanfarna tvo áratugi hefur fjölgun erlendra hjúkrunarfræðinga að hluta bætt upp skort á starfsfólki á Íslandi og reynslan af þeim verið góð. Lokaverkefni Ástrósar Óladóttur til MS-gráðu í stjórnun og stefnumótun árið 2020 og ber heitið „Þeir eru bara að bjarga okkur“, fjallar um reynslu stjórnenda á dvalar- og hjúkrunarheimilum af erlendum hjúkrunarfræðingum. Kom þar fram að helstu hindranir sem stjórnendur upplifðu voru vegna tungumálaörðugleika. Þetta leiddi til aukins álags á stjórnendur, en litið var á álagið sem lítilvægt vandamál í samanburði við mikilvægi þess að fá fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa. Í rannsókninni kom fram að án tilkomu erlendra hjúkrunarfræðinga á dvalar- og hjúkrunarheimilum, væri ekki möguleiki að halda þeim starfandi né bæta faglega þjónustu við heimilisfólk.
Íslenskan kemur – gefum þeim tíma
Þótt tungumál, menningarmunur og aðlögun geti verið áskoranir, eru þær auðleystar með þjálfun og stuðningi. Markviss móttaka og stuðningur hefur afar jákvæð áhrif og reynslan sýnir að þeir hjúkrunarfræðingar sem læra tungumálið ná grunnfærni á nokkrum mánuðum. Ríkið á einfaldlega að útvega erlendum hjúkrunarfræðingum íslenskukennslu og fræðslu um staðhætti í íslensku heilbrigðiskerfi.
Mikilvægt er að hafa í huga að engar kerfisbundnar kannanir um óánægju með tungumálaörðugleika á milli erlendra hjúkrunarfræðinga og íbúa, hafa verið mældar á landsvísu. Ekki er gert lítið úr möguleika þess, en meira kemur til eins og tjáningarmáti, menning og einstaklingsbundnar væntingar sem hafa áhrif á upplifun íbúa og aðstandenda. Þegar kemur að öryggi íbúa er tungumálið vissulega mikilvægur þáttur. Hins vegar er stærsti orsakavaldur mistaka í heilbrigðisþjónustu nokkrir samverkandi þættir, eins og þreyta, ófullnægjandi vinnuferlar og skortur á starfsfólki. Lykilsetningin hér er „skortur á starfsfólki“.
Ísland er eftirsóknarverður starfsvettvangur erlendra hjúkrunarfræðinga og við þurfum á þeim að halda. Erlendir hjúkrunarfræðingar færa okkur nýja þekkingu og ferska sýn sem nýtist íslenska heilbrigðiskerfinu. Tökum vel á móti þeim. Án þeirra versnar ástandið enn frekar.
Höfundur er framkvæmdastjóri Sólstaða sem útvegar erlenda hjúkrunarfræðinga fyrir íslenska heilbrigðiskerfið.