Ísland er gjarnan talið sleppa nokkuð vel frá loftslagsbreytingum miðað við önnur lönd. Þó geta óbein áhrif á Ísland og íslenskt samfélag verið töluverð af veðurafbrigðum annars staðar á hnettinum, sérstaklega í helstu viðskiptalöndum okkar.

Öfgafull veðurafbrigði eru núna orðin tíðari í Evrópu. Ásamt því að hafa áhrif á uppskeru geta þau haft töluverð áhrif á fjármálakerfi heimsins, yfirleitt neikvæð, t.d. á framleiðni og afkomu, enda hafa vistkerfi, sem fjármálakerfi treysta í grunninn á, aðlagast umhverfi sem nú breytist á miklum hraða.

Þegar litið er til fráviks á hitastigi í júní (sjá mynd), má sjá nokkuð skilmerkilega hvaða landsvæði hafa fundið hvað mest fyrir auknum hita á nýliðnu sumri. Þessi hitabylgja olli m.a. uppskerubresti, svo miklum að t.d. norskir bændur leituðu til Íslands eftir 30 þúsund heyrúllum í sumar. Kostnaður vegna hitabylgjunnar á eftir að koma í ljós, en öruggt er að hann verður umtalsverður.

Sú hitabylgja sem reið yfir Rússland árið 2010 leiddi til þess að 17% af hveitiuppskeru þeirra glötuðust (13,3 m hektara), hveitiframleiðsla féll um 63,5 milljónir tonna og fjárhagslegt tap reyndist um 1,3 milljarðar USD. Í kjölfarið hækkaði almennt matvælaverð um 0,9%.

Stuttu síðar, eða árið 2013, reið hitabylgja yfir Evrópu sem varði frá miðjum júní fram í miðjan ágúst. Hitabylgjan olli gríðarlegum uppskerubresti og fjárhagstjón varð vegna framleiðslutaps og aukins framleiðslukostnaðar sem metinn var á um 17 milljarða USD. Árið 2011 kostuðu þurrkar í Texas um 7,6 milljarða USD vegna slæmrar afkomu í landbúnaði.

Dæmin eru fjölmörg um fjárhagslegan skaða vegna loftslagsbreytinga. Í mars árið 2014 tilkynnti General Mills fjárfestum að slæm veðurskilyrði hefðu haft áhrif á afkomu fyrirtækisins sem nemur um 3-4% og töpuðust 62 dagar af framleiðslu. Slíkar tilkynningar eru orðnar tíðari frá skráðum félögum.

IPCC (The Intergovernmental Panel on Climate Change) reiknaði kostnað (t.d. út af uppskerubresti vegna þurrka) og mögulegan ábata (t.d. vegna meiri uppskeru á svæðum vegna meiri úrkomu) vegna loftslagsbreytinga. IPCC áætlar að ríki þurfi að meðaltali að greiða um 2% af vergri þjóðarframleiðslu árlega vegna loftslagsbreytinga, sem í tilfelli Íslands er um 51 milljarður króna eða rúmlega 460 milljónir USD ef miðað er við árið 2017.

Flest íslensk fyrirtæki starfa í þéttum alþjóðlegum virðiskeðjum. Óbein áhrif loftslagsbreytinga geta því verið margskonar, t.d. minni sala afurða til landa sem illa verða úti vegna loftslagsbreytinga sem geta valdið uppskerubresti og hærra hráefnisverði.

Ef litið er snöggt til annarra beinna áhrifaþátta, þá eru t.d. áhrif vegna súrnunar sjávar á íslenskan sjávarútveg nokkuð óljós, og hvernig hopun jökla og annarra náttúrufyrirbrigða mun hafa áhrif á ferðamannaiðnaðinn. Aukin úrkoma mun þó líklega hafa jákvæð áhrif á orkubúskap íslendinga. Vert er því að taka tillit til þessara þátta þegar gerðar eru áætlanir til framtíðar og mismunandi sviðsmyndir metnar.

Ein leið er að skoða gaumgæfilega hvort viðskiptalíkan fyrirtækja taki mið af áhættuþáttum loftslagsbreytinga og skoða mögulegan kostnað fyrirtækja vegna þeirra. Einnig er hægt að huga að fjármálaafurðum sem hannaðar eru til að fjármagna fyrirtæki eða verkefni sem lágmarka áhrif til loftslagsbreytinga.

Kraftur fjármálamarkaða til jákvæðra breytinga

Til marks um aukna vitund fjármálamarkaða um þá áhættu sem stafar af loftslagsbreytingum er framþróun hins græna skuldabréfamarkaðar. Útgáfu grænna skuldabréfa er ætlað að fjármagna fyrirfram skilgreind verkefni og starfsemi sem draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda sem er eitt af skilyrðum slíkrar útgáfu.

Í raun hugnast fjárfestum þessi leið svo mikið að Barclays, ACTIAM og Zurich, sem dæmi, fjárfestu í grænum skuldabréfum fyrir 4 milljarða USD árið 2015. En útgáfur og fjárfesting í grænum skuldabréfum hafa bara aukist síðan þá.

Þegar þessi grein er skrifuð hefur verðmæti útgefinna grænna skuldabréfa árið 2018 á heimsvísu náð rúmum 90 milljörðum USD en árið 2017 voru græn skuldabréf gefin út fyrir 161 milljarð USD. Ríki hafa einnig hafið útgáfu grænna skuldabréfa til fjármögnunar umhverfisvænna verkefna og má þar helst nefna Pólland, Belgíu, Frakkland, Indónesíu og Litháen sem samanlagt hafa gefið út skuldabréf að verðmæti rúmlega 14 milljarða USD.

Útgáfa grænna og sjálfbærra skuldabréfa fyrir undirliggjandi græn og sjálfbær verkefni á Íslandi gæti því verið góð leið til að fjölga fjárfestingarkostum og fjármagnað áhugaverð verkefni. Þessir fjárfestingakostir geta bæði stuðlað að betri áhættudreifni útgefenda og fjárfesta, t.d. uppfyllt stefnur lífeyrissjóða um siðferðislegar og ábyrgar fjárfestingar.

Eftir standa þónokkrar spurningar sem snúa að praktískum atriðum á útgáum grænna og sjálfbærra skuldabréfa og undirliggjandi verkefna sem leitast verður við að svara í framhaldsgrein.

Dr. Reynir Smári Atlason er meðstofnandi Circular Solutions.
Bjarni Herrera Þórisson er framkvæmdastjóri Circular Solutions.