Vísbendingar eru um að vaxtaverðlagning á lengri ríkisbréfum sé of lituð af verðbólguvæntingum til skamms tíma og hærri jafnvægisraunvöxtum.

Þann 13. júlí var umfjöllun í Viðskiptablaðinu um hagnað sem fjárfestar krefjast af fjárfestingakostum. Verðlagning fasteigna miðaðist við 5% ávöxtun, hlutabréf 4% og ríkisskuldabréf um 7%. Fjallað var um að ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréfum væri í samræmi við nýlegar þjóðhagsspár Arion banka og Íslandsbanka.

Miðað við núverandi efnahagsástand og fyrirheit stjórnanda Seðlabanka Íslands, um lága vexti til frambúðar, getur verið að núverandi ávöxtunarkrafa ríkisbréfa sé of há? Við lok viðskipta síðastliðinn þriðjudag nam krafan til 5 ára liðlega 7% og hefur ekki verið hærri síðan um mitt ár 2015 en þar áður á fyrsta fjórðungi 2010. Myndin sýnir þróun kröfunnar (OMXI5YNI skuldabréfavísitala) aftur til ársins 1998, breytingu vísitölu neysluverðs (verðbólgu) og verðtryggðrar ávöxtunarkröfu (OMXI5YI). Algengur fylgifiskur aukinnar verðbólgu er hækkandi óverðtryggð ávöxtunarkrafa en sömuleiðis ræðst þróun hennar af verðtryggðri kröfu og breytingu meginvaxta Seðlabankans.

Myndin verður jafnvel skýrari þegar skipt er út verðbólgu fyrir ársfjórðungsvæntingar markaðsaðila um verðbólgu eftir 12 mánuði sem nálgast má úr niðurstöðum könnunar Seðlabankans og ná aftur til ársins 2012. Þær sýna að frá árinu 2012 til 2021 samsvaraði vænt verðbólga markaðsaðila mismuninum á óverðtryggðri og verðtryggðri ávöxtunarkröfu til 5 ára. Nýjustu niðurstöður birti Seðlabankinn 17. maí síðastliðinn og gáfu þær til kynna væntingar um 6,3% verðbólgu að ári liðnu en á sama tíma var mismunur ávöxtunarkrafna lægri eða um 4,8%. Munurinn hefur haldið áfram að lækka og var um 4,39% við lok viðskipta á þriðjudag en að öllu óbreyttu birtir Seðlabankinn niðurstöður nýrrar könnunar um miðja næstu viku.

Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa ræðst af verðbólguvæntingum auk ávöxtunarkröfu verðtryggðra ríkisbréfa (Daníelsson (2009)). Verðtryggð ávöxtunarkrafa tekur mið af jafnvægisraunvöxtum sem eru háðir verðleiðréttri virðisaukningu starfsemi hagkerfisins enda undirstaða greiðslugetu þess í heild. Samkvæmt KODIAK var 5 ára verðtryggð ávöxtunarkrafa 2,5% við lok viðskipta á þriðjudag eða um tvöfalt hærri en 1,25% jafnvægisraunvextir í nýjasta opinbera gagnagrunni þjóðhagslíkans Seðlabankans. Byggt á forsendu um 4,4% verðbólgu og framleiðsluspennu úr maíútgáfu Peningamála má leiða út með líkaninu að skammtímavextir yrðu að meðaltali 6,7% næstu fimm ár. Aftur á móti ef reiknaðir eru fólgnir framvirkir nafnvextir til næstu fimm ára miðað við verð ríkisskuldabréfa í lok dags síðastliðinn þriðjudag má sjá að fjárfestar reikna með hærri skammtímavöxtum eða að meðaltali 7,2% yfir sama tíma.

Verðlagning ríkisbréfa ræðst ekki einungis af efnahagslegum þáttum heldur sömuleiðis flæði á markaði. Tilefni er til lægri ávöxtunarkröfu ríkisbréfa þar sem eftirspurnarhlið þeirra er vannýtt þegar horft er til að eignarhald erlendra aðila er með minnsta móti samkvæmt Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins á meðan vaxtamunur við Bandaríkin er um 3%. Eftir stendur óskilvirkni á gjaldeyrismarkaði – því miður. Að gefinni aukinni dýpt og gagnsæi þessa markaðar þekkir lesandi að eftirspurn erlendra aðila myndi hæglega yfirgnæfa mögulega aukna útgáfu ríkisbréfa vegna hallareksturs ríkissjóðs og þeirrar óvissu sem vomir yfir úrvinnslu og uppgjörs ÍL-sjóðs.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.