Nú er útlit fyrir að í næstu ríkisstjórn verði flokkar ráðandi sem hallir eru undir upptöku evru. Þeir hafa gagnrýnt fyrirkomulag peningamála og talið upp ýmsa ókosti krónunnar. Íslenska krónan hefur með markvissum hætti verið þynnt út síðan hún var tekin upp, vextir hér á landi löngum verið hærri en annars staðar og óhagræði hefur fylgt því fyrir út- og innflutningsfyrirtæki að búa við óvissu og gengissveiflur.

Þessi gagnrýni á allan rétt á sér, svo langt sem hún nær. Að mínu viti fer hún þó á mis við stærri sannleik, sem lýtur að eðli þess peningakerfis sem komið hefur verið upp í heiminum.

Og hver er sá sannleikur? Yfirlýsingaglaðari menn en sá sem þetta ritar myndu kalla peningakerfi heimsins svikamyllu. Útgáfa lögeyris þjóða er illa dulbúin skattlagning og bitnar verst á þeim sem minnst mega sín.

Þeir sem ekki skafa utan af hlutunum myndu segja að elítur heimsins hefðu komið sér fyrir í bankakerfi og stjórnmálum og gert með sér samkomulag til að sópa til sín verðmætum frá fyrirtækjum og hinum almenna borgara.

Í sjálfu sér er leikfléttan einföld, myndu þeir segja. Almenningur er neyddur til þess að nota ríkisgjaldmiðil, sem seðlabankar og ríkisvald prenta með einum eða öðrum hætti til að fjármagna ósjálfbæran rekstur hins opinbera og færa auð í hendur hinna útvöldu. Í stórum dráttum má segja að öll ríkisútgjöld verði á endanum að sköttum, því ef ríkið getur ekki skattlagt meira tekur það lán sem oftast verður ekki borgað öðruvísi en með útgáfu nýrra peninga.

Ég er nú ekki svona stórorður, en nauðvörn almennings er ekki evra, sem er undir þessi lögmál seld eins og aðrir ríkisgjaldmiðlar. Hún er gull eða rafmyntin Bitcoin, sem eru með fyrirsjáanlegu og gagnsæju framboði.

Höfundur er skrifstofumaður.