Góðar samgöngur eru grundvöllur þess að byggilegt sé á úthafseyjunni Íslandi. Þannig hefur það alltaf verið. Enda hefur Ísland verið verstöð frá því fyrir landnám.
Þegar við afsöluðum okkur fullveldi í gamla sáttmála 1262 var það m.a. til að tryggja skipakomur til landsins. Þá var talið sjálfstæðisins virði að fá loforð um að ekki skyldu færri en sex skip sigla til landsins árlega frá Noregi með nauðsynjar.
Það var risaskref í átt að efnahagslegu sjálfstæði þegar Íslendingar vélvæddu fiskiskipaflotann upp úr aldamótum 1900, dorguðu ekki lengur dáðlausir upp við sand, heldur sköpuðu verðmæti úr auðlindum hafsins. Sama átti við þegar Ísland iðnvæddist og skapaði verðmæti úr fallvötnunum. Ísland varð útflutningsþjóð og samgöngur lífæð samfélagsins.
Þá hafði þjóðskáldið stórhuga Einar Benediktsson brýnt þjóðina til dáða í Íslandsljóði, sem hófst á svofelldum orðum: „Þú fólk með eymd í arf! / Snautt og þyrst við gnóttir lífsins linda ... reistu í verki/ viljans merki, – vilji er allt sem þarf.“
Ekki má endurtaka sig að íslenskur skipafloti fúni í naustum, eins og í aðdraganda gamla sáttmála. Á hverjum tíma er það umhugsunarefni, hvernig best verður búið að þeim íslensku fyrirtækjum, sem keppa í samgöngum til og frá landinu.
Fyrirséð er að kolefnisgjöld í ETS-kerfinu verða stöðugt meira íþyngjandi og grafa undan samkeppnishæfni íslenskra flugfélaga og skipafélaga. Það gefur auga leið að séríslenskar eða sérevrópskar álögur eru gönuhlaup í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi.
Þá hlýtur að vera keppikefli að gera eftirsóknarvert fyrir alþjóðleg fyrirtæki í flugi og siglingum að setja upp höfuðstöðvar hér á landi. Til þess þurfa skilyrðin að vera samkeppnishæf. Umhugsunarvert er að í Noregi, Danmörku og Færeyjum er alþjóðleg skipaskrá, en ekki á Íslandi. Viljum við ekki keppa í alþjóðlegum skipaflutningum, þar sem leiðir eru að opnast á norðurslóðum?
Ísland er eyland. Það er okkar sérstaða. En til þess að breyta þeirri sérstöðu í tækifæri þarf umfram allt samgöngur sem standast allan alþjóðlegan samanburð.
Höfundur er ráðgjafi og fjölmiðlamaður.