Óðinn fjallaði í Viðskiptablaðinu á föstudag um söluna á Kerecis.

Ríkisstyrkir til nýsköpunar er einnig umtalsefni, sem yfirlýsingar Guðmundar Fertram, stofnanda Kerecis, um samfélagsmál.

Hér er á eftir er stutt brot úr byrjuninni á pistli Óðins, sem áskrifendur geta lesið í fullri lengd hér.

Kerecis, ríkis­stuðningur, sam­fé­lags­skoðanir og auð­lindar­gjald

Kerecis er eitthvert allra besta fyrirtæki sem Ísland hefur átt. Það er fátt fallegra en að nýta roðið af þorskinum, sem er ein helsta ástæðan fyrir því að Ísland er svo vel statt efnahagslega - þrátt fyrir endalausar og stöðugar tilraunir vinstrimanna til að eyðileggja þá velsæld. Og nota svo roðið til þess að græða sár á manni sem á hættu af því að missa útlim.

Það sem er hvað merkilegast við uppgötvun Guðmundar Fertrams og félaga er að líkaminn heldur að þorskroðið, eftir að hafa farið í gengum vinnslusalinn á Ísfirði, sé skinn af manni sem hann lagar sig að. Sem sýnir að við erum öll nær þorsknum en við héldum. Svo skammaryrðið þorskhaus átti kannski aldrei neitt sérstaklega vel við.

Óðinn samgleðst líka öllum þeim sem högnuðust á þessum viðskiptum en hagnaðurinn virðist hafa verið gígantískur hjá flestum hluthöfum. Nema ef til vill seinheppnum lífeyrissjóði verkfræðinga þar sem fjárfestingarstjórinn telur að „fjárhagslegur femínismi sé lykilinn að betri framtíð.“ Það er bara þannig.

Svo samgleðst Óðinn Ísfirðingum, og raunar Vestfirðingum öllum. Kerecis hefur gert meira gagn en Byggðastofnun frá stofnun, enda stofnun. Sem og forverarnir sem má rekja aftur til 1962 þegar atvinnujöfnunarsjóður var stofnaður. Mikið óskaplega hlýtur að vera óþægilega að starfa hjá þeirri gagnslausu stofnun.

Aðkoma ríkisins að nýrri sköpun

Guðmundur Fertram hefur þakkað mjög framlag Tækniþróunarsjóðs, öðru nafni ríkisjóðs. Hann hefur til dæmis sagt í viðtölum að auglýsing frá sjóðnum hafi komið honum af stað með Kerecis.

Þetta finnst Óðni mjög merkilegt og gerir ekki lítið úr þessu. En Óðni finnst málið flóknara og mikilvægt að ræða um opinbera styrki til fyrirtækja.

Það hefur lítil umræða verið um framlög ríkisins til nýsköpunarfyrirtækja. Enn meira er á reiki hvað raunverulega er nýsköpun þó það eigi vitanlega ekki við um Kerecis.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudaginn. Áskrifendur geta lesið pistilinn í fullri lengd hér.