Helstu hagaðilar og sérfræðingar hafa varað eindregið við verulegri og fyrirvaralausri hækkun veiðigjalds. SFS hafa verið þar á meðal. Draga má fram nokkrar röksemdir, en þær telja hundruð síðna.

  1. Ríkissjóður mun taka til sín meira en 70% hagnaðar fiskveiða í formi hækkaðs veiðigjalds og þá á enn eftir að greiða önnur opinber gjöld eins og tekjuskatt. Þetta sýna töluleg gögn Hagstofu og greiningar Deloitte.
  2. Hækkunin mun koma mjög misjafnlega niður á fyrirtækjum. Þess eru dæmi að allur hagnaður fyrirtækja renni til hins opinbera nái breytingin fram að ganga. Þetta sýna greiningar Deloitte og KPMG.
  3. Arðsemi í sjávarútvegi er ekki meiri en í öðrum atvinnugreinum. Hefði hækkunin verið í gildi árið 2024 hefði arðsemi verið mun minni en á áhættulausum sparnaðarreikningi í banka og undir verðbólgu. Þetta sýna gögn Hagstofu og greiningar KPMG og Jakobsson Capital.
  4. Arðgreiðslur frá sjávarútvegi eru ekki meiri en í öðrum atvinnugreinum og raunar hafa þær á liðnum áratug verið verulega minni en í viðskiptahagkerfinu. Þetta sýna gögn Hagstofu.
  5. Íslenskur makríll er til muna verðminni en norskur makríll sem hækkað veiðigjald á að miðast við. Í yfirlýsingu Norges Sildesalgslag er mikill gæða- og verðmunur á íslenskum og norskum makríl staðfestur. Íslensk skip fá ítrekað umtalsvert lægra verð en norsk skip á uppboðsmarkaði þar í landi.
  6. Aðferðafræði frumvarpsins er í andstöðu við sjónarmið OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um skattlagningu auðlinda. Þetta sýnir greining KPMG.
  7. Ráðherra vanmat stórkostlega hækkanir sem aðferðafræði frumvarps fól í sér. Fyrir þessu færðu SFS ítrekuð rök í umsögnum, en ráðherra skeytti í engu um þau. Vanmatið var síðan staðfest af Skattinum.

Stjórnvöld hafa ekki gert nokkurn reka að því að eiga efnislega umræðu um fyrrgreind eða önnur áhrif frumvarpsins. Ráðherrar hafa fremur kosið að tala um dellu og falsfréttir. Dæmi nú hver fyrir sig.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 5.995 kr. á mánuði