Undirritaður skrifaði fyrir hálfum mánuði um fyrirkomulag þar sem stofnunin Skatturinn undir stjórn embættis ríkisskattstjóra kemur að skattadeilum á öllum stigum máls.  Skatturinn úrskurðar í eigin málum, teflir fram sjónarmiðum fyrir yfirskattanefnd, fer fram á það við ráðuneyti fjármála að það stefndi borgurum til að fella úr gildi úrskurði yfirskattanefndar, er ríkislögmanni til ráðgjafar í dómsmálum og hefur loks sterka rödd í ráðgjöf um lagasetningu.  Var bent á að fyrirkomulagið gæti gert það að verkum að óheppnir skattgreiðendur lentu í ævarandi deilu við skattinn og skilin eftir spurning um til hvers æðri stjórnvöld væru þá.

Hinn augljósi punktur var sá að undirritaður telur það varhugavert að Skatturinn sé allsstaðar við borðið.  Þá ætti að draga allavega tvær jafn augljósar ályktanir af því. Að ástæða geti verið til að veita ráðrúm, fjármagn og mannafla svo ráðuneyti fjármála og ríkislögmaður eigi hægt um að meta skattaleg álitaefni án forystu Skattsins.  Þá kunni að vera ástæða til að breyta fyrirkomulaginu og draga úr líkindum Skattsins við aðila máls.  Þessar skoðanir eru auðvitað umdeilanlegar eins og annað.

Þakkir til starfsmannsins

Nú bregður svo við að ágætur maður sem titlar sig fyrrverandi endurskoðanda, en gleymir að bæta “og starfsmaður skattsins” við þann titil, gerir einmitt ágreining um þessar skoðanir. Reyndar á öðrum miðli.

Í fyrsta lagi virðist hann misskilja greinina fyrir viku. En fer þá leið að hafa uppi málflutning um efni deilumála sem Skatturinn stendur að og er einmitt við borðið allan hringinn. Undirritaður hafði nefnt þau samhengisins vegna, fyrsta og eina dæmi þess að núgildandi lögum að fjármálaráðuneytið fari að ráðum Skattsins um að höfða dómsmál gegn skattgreiðanda til ógildingar úrskurðar yfirskattanefndar.

Fer hann þar með í bolta langt utan vallar og gerir undirrituðum þann greiða að undirstrika punktinn úr fyrri greininni. Það er varhugavert að skatturinn sé allsstaðar við borðið og komi fram sem einskonar aðili máls.  Er hér með komið á framfæri þökkum fyrir þetta útspil, en því ber að halda til haga að skrifin eru ekki sett fram sem skoðanir Skattsins.

Í öðru lagi gerir fyrrverandi endurskoðandinn það sem títt er þegar fátt er um rök.  Fyrir utan spil hans langt utan vallar fer hann beint í manninn, vinnustað hans og vinnufélaga.  Er undirrituðum gerðar upp ýmsar skoðanir og hvatar, er það ekki svaravert.

Í þriðja lagi má færa rök fyrir því að eðlilegt sé að fjalla um álitaefni í fjölmiðlum. Jafnvel gæti það talist eðlilegt í lýðræðisríki.  Er uppbygging skattkerfisins og athafnir Skattsins líklega innan allra siðferðismarka í þeim efnum.  Þó það fari fyrir brjóstið á endurskoðandanum fyrrverandi verður að segjast að í slíkri umfjöllun felst ekki að mál sé lagt fyrir „dómstól götunnar“ eins og hann heldur fram.  Jafnframt er hólið þakkað en undirrituðum verður tæpast eignuð „tiltekin innræting í samfélaginu“ með vangaveltum sínum um útfærslur og aðgerðir í deilumálum um skatta.

Staða Skattsins

Í ljósi þess hve endurskoðandanum fyrrverandi er mikið niðri fyrir um meintan „ruðning“ og „áróður“ er ástæða til að taka orðrétt upp og ítreka ummæli undirritaðs úr fyrri grein: „Það er ástæða til þess að halda því til haga að embætti skattsins gegnir veigamiklu hlutverki og engin ástæða til þess að draga úr. Það er jafn ljóst að embættið er lægra sett stjórnvald í skattkerfinu og á ekki hagsmuna að gæta við úrlausn deilumála fyrir æðri stjórnvöldum eða dómstólum.“

Vonandi er svo glannalegt umfjöllunarefni sem skattkerfið er, efni laga, eða athafnir hins opinbera, ekki þannig vaxið að viðkvæmum sálum, jafnvel samfélaginu sjálfu, stafi brýn hætta af.  En endurskoðandinn fyrrverandi er hér með boðin ávallt velkomin í kaffi og skoðanaskipti á vinnustað undirritaðs, enda slík skipti jafnan til gagns. Annars er áhugasömum auðvitað bent á að lesa skrifin og leggja eigið mat á réttmæti þeirra ábendinga sem koma fram á báða bóga.

Höfundur er lögmaður og einn eigenda Logos.