Týr sér að Félag hjúkrunarfræðinga hefur skorað á stjórnvöld að krefjast íslenskukunnáttu hjá hjúkrunarfræðingum sem eru af erlendu bergi brotnir, til að þeir geti fengið starfsleyfi.
Munu þetta vera að stofninum til sömu hjúkrunarfræðingarnir og kvarta reglulega í fjölmiðlum yfir brottfalli í stéttinni og miklu álagi í vinnunni á Landspítalanum? Að þeirra sögn sýna þessar kvartanir þá miklu manneklu sem ríkir á Landspítalanum og það mikla álag sem hvílir á hjúkrunarfræðingum sem starfa hjá ríkinu.
Fyrir um fimm árum störfuðu um 1.654 hjúkrunarfræðingar í 1.221 stöðugildi á sjúkrahúsinu. Brugðist var við manneklu þá með því að ráða til starfa um 250 hjúkrunarfræðinga með erlent ríkisfang.
Týr veit ekki betur en að það hafi gengið með ágætum. Hjúkrunarfræðingarnir erlendu sinna starfi sínu, þó svo að þeir geti ekki þulið upp Disneyrímur Þórarins Eldjárns eða kveðist á við sjúklingana.
Enn er sagður skortur á hjúkrunarfræðingum. Augljóst er að sá vandi verður ekki leystur nema með ráðningu erlendra hjúkrunarfræðinga. En Félag hjúkrunarfræðinga vill koma í veg fyrir þá lausn með því að hindra að þeir verði ráðnir til starfa.
Samkvæmt fréttum hefur starfandi hjúkrunarfræðingum af erlendu þjóðerni fjölgað úr 6% í 11% á síðustu þremur árum. Í fyrra var tæplega þriðjungur hjúkrunarleyfa frá embætti landlæknis veittur erlendum hjúkrunarfræðingum.
Augljóst er að erlendir hjúkrunarfræðingar verða aldrei ráðandi í starfsstéttinni. Það þýðir að samskiptavandamál vegna skorts á íslenskukunnáttu ættu ekki að vera mikil á deildum Landspítalans og annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Erlendu hjúkrunarfræðingarnir geta því sinnt störfum sínum af kostgæfni og fagmennsku, þó svo að þeir geti ekki spjallað um daginn og veginn við alla sjúklinga.
Krafa Félags hjúkrunarfræðinga er fráleit og til þess fallin að auka álag og kostnað í heilbrigðiskerfinu og er í sjálfu sér einn liður í kjarapólitík sem snýr að því að hækka laun í krafti skorts á starfsfólki.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 21. maí 2025.