Á meðan Ísland var undir Danakonungi ríkti ein forréttindastétt hér á landi: Embættismenn konungs hér á landi og fylgihnettir þeirra.
Blessunarlega breyttist þetta hratt og örugglega á 20. öldinni. Heimastjórn, fullveldi og athafnafrelsi leysti efnahagslegan þrótt þjóðarinnar úr læðingi. Íslendingar fóru úr örbirgð til velmáttar.
Þessa sögu þekkja allir, nema þá kannski allra hörðustu stuðningsmenn Viðreisnar.
Lykillinn í þessari vegferð hefur verið hvatinn til verðmætasköpunar sem hefur svo verið nýttur til þess að skapa sanngjarnt og gott samfélag sem býður upp á aragrúa tækifæra fyrir þá sem kjósa að nýta sér þau. Verðmætasköpunin var grundvöllur velferðarinnar.
En að undanförnu hefur Týr velt fyrir sér hvort þessi grundvöllur sé brostinn fyrir þó nokkru síðan. Kann það að vera að hér sé risin ný forréttindastétt sem hvorki deilir kjörum með almenningi né kærir sig um að gera það? Stétt sem er jafnari en aðrar stéttir svo vísað sé til dýrabæjar – þó ekki þess sem er starfræktur á Slakka heldur þeirrar sem varð Orwell að yrkisefni um miðja síðustu öld.
Þessi forréttindastétt eru opinberir starfsmenn. Þegar farið var yfir fréttir síðustu viku mátti lesa um opinbera starfsmenn á miðjum aldri sem eru að kaupa sér eftirsóttar þakíbúðir í Skuggahverfi fyrir hundruð milljóna króna. Það mátti einnig lesa um opinbera starfsmenn sem hoppa úr einu opinberu starfi í annað því það er betur launað og fá fimm ára leyfi frá fyrra starfi sem er svo framlengjanlegt um önnur fimm ár. Ekki má svo gleyma fréttum um að einkafyrirtæki geti alls ekkert keppt við hið opinbera þegar kemur að kjörum og vinnutíma.
Svo má ekki gleyma kennurunum sem eru á leið í verkfall. Heildarlaun framhaldsskólakennara eru að meðaltali um 1,1 milljón á mánuði sem er hærra en meðallaun háskólamenntaðra sérfræðinga á almenna markaðnum. Kennarar í grunn- og framhaldsskólum eru að krefjast þess að laun þeirra hækki um tugi prósenta fram yfir laun þeirra síðarnefndu. Þetta kalla þeir að gera kjör þeirra
sambærileg við það sem gerist á almenna
markaðnum.
Jöfnuðurinn er að sögn algjör í dýrabæ Orwells. Hann er eigi síður enn meiri þegar kemur að opinberum starfsmönnum á Íslandi.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi kom fyrst út í blaðinu sem kom út 29. janúar 2025.