Frá áramótum hefur Alþingi samþykkt fjögur fjáraukalagafrumvörp. Þrjú vegna jarðhræringanna í Grindavík og eitt í tengslum við kjarasamninga á almennum markaði. Ákvað ríkið að kæra sig inn í þá samninga með 13,5 milljarða nýjum ríkisútgjöldum í alls konar „til að liðka fyrir samningum“. Eftir standa lausir kjarasamningar við ýmsar opinbera stéttir og yfirstandandi verkföll í skólum. Stuttu eftir slit ríkisstjórnarinnar lagði svo fjármálaráðherra fram í fimmta sinn frumvarp til fjáraukalaga.
Er eitthvað nýtt að frétta?
Hlutverk fjáraukalaga er að mæta ófyrirséðum og tímabundnum kostnaði. Óumdeilt má vera að eldsumbrotin hafi kallað á að veittar væru skýrar fjárheimildir til þeirra aðgerða sem ætlað var að eyða óvissu meðal Grindvíkinga. Segja má að fjáraukalögin vegna Grindavík séu skólabókardæmi um hlutverk fjáraukalaga.
Nú ber hins vegar svo við að í fimmtu fjáraukalögum ársins eru það ekki óvæntir atburðir sem knýja á um lagasetninguna. Þvert á móti hafa þau atvik sem tilgreind eru sem rökstuðningur fyrir hækkun fjárheimilda um 24,5 milljarða króna verið nokkuð fyrirsjáanleg. Um er að ræða 1,6% hækkun frá áður samþykktum fjárlögum. Höfðu þó fyrri fjáraukalög ársins aukið ríkisútgjöldin um 20 milljarða frá fjárlögum ársins sem gerðu ráð fyrir um 1500 milljarða heildarútgjöldum ríkisins.
Alls kyns viðbót
Fyrir utan óvæntan kostnað vegna fyrirhugaðra alþingiskosninga (468 milljónir) eru engin atvik önnur tilgreind í frumvarpinu sem teljast mætti óvænt eða ófyrirséð og brýn og réttlætt gætu aukin ríkisútgjöld á þessum tímapunkti. Vetrarþjónusta vegakerfisins (2,9 mia), stuðningur við Úkraínu (1,5 mia), styrkir til almenningssamgagna (229 millj.) og viðbótarframlag vegna endurgreiðslu til kvikmyndagerðar eru dæmi um fjárveitingu af fé sem ekki er til. Þessir liðir telja samtals 9,9 milljarða.
Skuldir…
Það sem vakti athygli mína við lestur fjáraukalagafrumvarpsins hins fimmta var uppfærð áætlun um skuldir ríkissjóðs og vaxtagjöld sem falla til á þessu ári.
Skuldir ríkissjóðs hafa hækkað um 1.000 milljarða frá árinu 2019 til dagsins í dag. Þessi hallarekstur var þannig hafinn fyrir faraldur og honum hefur verið viðhaldið eftir hann.
Samþykkt fjárlög gerðu ráð fyrir 1.700 milljarðar króna skuldum ríkissjóðs. Í fjáraukafrumvarpinu er upplýst um að skuldirnar verði verulega hærri, um 1.900 milljarðar. Hækkun um 200 milljarðar sem frumvarpshöfundar telja að gangi til baka þegar Íslandsbanki verði seldur. Tekjur af sölu bankans telja þó bara einu sinni í bókhaldinu og eru eins og dropi í skuldahafið.
…og vextir af þeim
Vextirnir tikka hins vegar áfram á ógnarhraða. Vaxtagjöld eru nú þegar fjórði stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs, ekki mikið minni en sá er lýtur að menntamálum og töluvert stærri en sá er lýtur að samgöngum. Síðast þegar að var gáð var vaxtakostnaður ríkisins 99 milljarðar. Nú er gert ráð fyrir hækkun gjaldanna um 14,5 milljarða vegna nýrra lána sem ríkið ætlar að slá. Ríkisfjármál af þessum toga eru ekki sjálfbær.
Forgangsmál næstu ríkisstjórnar
Það er óskandi að allir þeir sem nú sækjast eftir sæti á Alþingi viðurkenni að það verður að vera forgangsmál að koma böndum á skuldasöfnun ríkissjóðs. Að menn hafni frekari lántökum ríkisins. Vaxtakostnaður getur ekki verið einn stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs.
Það verður að vera forgangsmál næstu ríkisstjórnar að greiða niður skuldir ríkissjóðs og sýna raunverulegt aðhald í ríkisrekstrinum. Sitjandi þingmenn gætu gengið fram með góðu fordæmi og hafnað þótt ekki væri nema eins og einni útgjaldahækkuninni sem fimmta útgáfa fjáraukalaga boðar.
Sigríður Á. Andersen er lögmaður.