Í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn fyrir viku fjallaði Óðinn um gjaldþrot Fréttablaðsins og rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Hér er stutt brot úr pistli Óðins en áskrifendur geta lesið hann hér.

Fjölmiðlar eins og hver önnur fyrirtæki

Fjölmiðlar eru eins og hver önnur fyrirtæki. Þau veita lesendum, hlustendum og áhorfendum þjónustu. Á Norðurlöndunum er víðast gerð krafa um að fjölmiðlar láti notendur sína greiða fyrir þjónustuna í formi áskrifta. Ella fái þau ekki ríkisstyrki. Hvers vegna ætli sú krafa sé ekki gerð hér á landi?

Margir helstu fjölmiðlar heims voru í miklum vandræðum fyrir rúmum áratug. Þeir voru margir með fríar fréttasíður og gáfu því stóran hluta frétta sinna. Rétt eins og Viðskiptablaðið gerði þar til fyrir skömmu.

Þegar fjölmiðlarnir fóru að krefja notendur um sanngjarna greiðslu fyrir þjónustuna snerist afkoman við, tekjurnar jukust og tap varð að hagnaði. Fjölmiðlar eins og Wall Street Journal, Telegraph og New York Times eru dæmi um slíka miðla.

***

Þetta geta stóru íslensku fréttamiðlarnir á vefnum ekki endilega ekki gert með sama hætti. Því vefur Ríkisútvarpsins verður alltaf opinn með sína 5,8 milljarða í forgjöf.

Þegar talað er um rekstrarstöðu fjölmiðla er rétt að hafa þetta í huga. Því líta sumir á ríkisstyrkinn til einkarekinna fjölmiðla sem bætur fyrir skaðann sem Ríkisútvarpið veldur. Það er sjónarmið.

Eina leiðin til að bæta samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla á Íslandi er að lækka framlögin til Ríkisútvarpsins og afmarka hlutverks þess mun betur.

Réttast væri auðvitað að leggja það niður, stofna sjóð sem hver sem er getur sótt í til að gera vandað efni á íslensku.

Það er alveg hreint ótrúlegt að þegar ríkissjóður er rekinn með 120 milljarða halla skuli umræðan ekki vera um hvernig minnka megi fjáraustur skattgreiðenda til fjölmiðla.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út miðvikudaginn 5. apríl. Áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.