Fyrir kosningar eru margar hugmyndir kynntar um hvernig skattlagningu skuli háttað – nú er m.a. rætt um fjármagnstekjuskatt á tekjur af hlutafjáreign. Þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir grundvallaratriðum skattkerfisins. Breytingar, eða ekki, hafa áhrif. Til þess að skilja þau er nauðsynlegt að skilja kerfið.
Það er Alþingis að taka ákvarðanir um skatthlutföll, í formi lagasetningar. Hér verður ekki fullyrt um hvað skuli ákveða heldur varpað ljósi á ákveðnar staðreyndir varðandi skattlagningu rekstrar og tekna hluthafa. Hvað á endanum er gert ræðst af aðstæðum og afstöðu löggjafans hverju sinni.
Hverjir borga skatta – hverjir bera skattbyrðina
Þegar skattkerfi er útfært er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að engir aðrir en einstaklingar geta endanlega borið skattbyrðina. Þeir gera það beint, eða óbeint í gegnum fyrirtæki sem þeir eru hluthafar eða haghafar í. Þetta er einfaldlega staðreynd. Félög borga vissulega skatta en kostnaðurinn við það er borinn endanlega af einstaklingum. Fyrir áhugasama má benda á ágætt 1291 blaðsíðna tveggja binda rit útgefið af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um hönnun og gerð skattkerfa, sem er aðgengilegt á heimasíðu sjóðsins.
Samspil tekjuskatts á rekstur og fjármagnstekjuskatts
Af staðreyndinni leiðir að tekjuskattur á tekjur sem aflað er með fyrirtækjarekstri er samspil álagningar á rekstur og álagningar á fjármagnstekjur hluthafa. Undanfarin ár hefur skatthlutfall á hlutafélög verið 20% og skatthlutfall á arð og söluhagnað einstaklinga 22%. Það þýðir að af hverjum 100 kr. sem verða eftir úr rekstrinum greiðir félagið 20 kr. og við úthlutun afgangsins greiðir hluthafinn 17,6 kr. (80*22%) til viðbótar. Samtals eru greiddar 37,6 kr., þ.e. skatthlutfall á tekjur hluthafans í gegnum reksturinn er 37,6%. Í ár er þetta hlutfall hærra, eða 38,4%, sökum tímabundinnar hækkunar á skattlagningu hlutafélaga.
Hver eiga hlutföllin að vera?
Alþingi lýtur m.a. hömlum stjórnarskrár þegar kemur að því að ákveða skatthlutföll. Að mati höfundar ekki hægt að finna einhvern stóra sannleik um það hver hlutföllin eiga að vera. Það verður að vera háð aðstæðum og pólitísku mati hverju sinni en innan marka stjórnarskrár. Við hið pólitíska mat er nauðsynlegt skilja hvernig kerfið virkar ef gera á breytingar.
Í raun á að vera ástæða fyrir því hver skatthlutföll rekstrar og fjármagnstekna eru. Þau eru nálgun á það skatthlutfall sem lagt er á launatekjur einstaklinga. Sé slegið inn í reiknivél Skattsins laun upp á eina milljónir króna á mánuði þá er tekjuskattur af þeim 285.875 kr. eða um 28,6%. Hlutfallið hækkar með hækkandi launum. Ef að launin færu í tvær milljónir króna á mánuði þá hækkar hlutfallið í 36,4% og nálgast skattlagningu tekna í gegnum rekstur en stefnir á endanum yfir raunskattlagningu tekna í gegnum rekstur og á hæsta hlutfall sem er 46,28% eftir því sem launin hækka, sem þó næst aldrei sökum þrepaskiptingu og persónuafsláttar. Ef launin lækka þá lækkar skatthlutfallið líka og endar í núlli sökum persónuafsláttar. Skatthlutfall á tekjur í gegnum rekstur helst hins vegar óbreytt óháð því hve háar eða lágar þær eru (með því fráviki að það er árlegt 300 þúsund króna frítekjumark af arði eða söluhagnaði af félögum skráðum á markað).
Hér er ekki tekið tillit til annarra liða eins og iðgjalda í lífeyrissjóð eða tryggingagjalds enda einungis horft til tekjuskatts. Eins og skatthlutföllin eru stillt af í dag þá ber sá sem fær eina milljónir króna í mánaðarlaun verulega lægra skatthlutfall en sá sem aflar sömu fjárhæðar í gegnum rekstur hlutafélags. Það verður hver að dæma fyrir sig um það hvort það er gott eða slæmt.
Val Alþingis
Á hverjum tíma er það val Alþingis hvaða hlutföll verða notuð. Mögulega væri best ef Alþingi veldi að nota þannig hlutföll að það skipti ekki máli hvernig tekna er aflað. Þá velur hver og einn þá leið til tekjuöflunar sem hentar styrkleikum, veikleikum, áhættuvilja, lífsskoðunum viðkomandi o.s.frv. frekar en að skatthlutföll hefðu áhrif.
Í skattkerfi sem er hannað eins og það íslenska er hins vegar líklega ekki hægt að gera þetta, kemur það til af ýmsum ástæðum sem of langt er að rekja hér. Því verður alltaf um nálgun að ræða. Þá kemur til skoðunar til hvers eigi að taka tillit. Það er ýmislegt sem kann að vera rétt að horfa til, áhætta þess sem fer í rekstur, tafir á arðgreiðslum m.v. hraða launagreiðslna, verðbólgu, o.s.frv. Það er eflaust mismunandi hvar áherslur liggja eftir afstöðu hvers og eins. Höfundur veltir því fyrir sér hvort kerfið eigi ekki að hvetja til rekstrar frekar en letja.
En hver sem sjónarmiðin eru þá má ekki gleymast hvernig kerfið virkar. Annars er hægt að valda á því verulegu tjóni við gerð breytinga, jafnvel gætu afleiðingar orðið aðrar en þær sem stefnt er að. Því væri það öllum til gagns að umræður komandi vikna tækju mið af því hvernig kerfið virkar í raun.
Höfundur er lögmaður og einn eigenda Logos.