Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur farið markvisst hækkandi undanfarnar vikur. Það kemur engum á óvart að kynning Sigurðar Inga Jóhannssonar fjármálaráðherra breytti engu um þessa þróun.
Álagið hélt eftir sem áður að aukast á markaði. Enda kemur skýrt fram að stjórnvöld hafa engin áform um að draga úr aukningu ríkisútgjalda á næstu árum. Fjármálaáætlunin felur eingöngu í sér hagræðingu upp á 25 milljarða og áframhaldandi hallarekstur fram til ársins 2028.
Um leið og búið var að kynna fjármálaáætlunina steig svo hver ráðherrann á fætur öðrum fram og boðaði tugmilljarða útgjaldaaukningu í hitt og þetta. Það er engin furða að þróunin á skuldabréfamarkaðnum bendi ekki til þess að markaðsaðilar hafi trú á að ríkisfjármálunum verði beitt til þess að ná fram verðstöðug-
leika.
Rétt er að hafa í huga að gengið verður til alþingiskosninga að óbreyttu á næsta ári. Samfylkingin, sem hefur farið með himinskautum í könnunum, og aðrir stjórnarandstöðuflokkar hafa ekki boðað neinar aðrar lausnir við stjórn efnahagsmála en að auka ríkisútgjöld enn frekar auk þess að skaða hagkerfið með frekari skattahækkunum á einstaklinga og
fyrirtækja. Þannig má segja að þverpólitísk sátt ríki á Alþingi um að auka útgjöld algjörlega óháð efnahagsaðstæðum.
Fyrir nokkru tók delluumræða sér bólfestu hér á landi um að verðbólgan væri að stærstum hluta til komin vegna hagnaðarsóknar fyrirtækja. Eins og fjallað hefur verið um í þessu blaði stenst þessi umræða enga skoðun og engin efnahagsleg rök styðja hana. Eigi að síður tóku sumir stjórnmálamenn henni opnum örmum – væntanlega til þess að firra þá ábyrgð á stjórn efnahagsmála: verðbólga er öllum öðrum að kenna en þeim sem stýra ríkisfjármálum.
Vegna þessara umræðu óskuðu níu þingmenn Flokks fólksins og Pírata eftir skýrslu frá fjármálaráðherra um hlut fyrirtækja í „hagnaðardrifinni verðbólgu“. Þeirri skýrslu var skilað inn í þessari viku eins og fjallað er um á öðrum stað í blaði dagsins.
Skýrslan er ágæt og niðurstaða hennar er afgerandi og vel rökstudd: Yfirstandandi þrálátt verðbólguskeið má rekja til framboðsskells og sterkrar eftirspurnar í kjölfar lágra vaxta og mikils hallareksturs hins opinbera. Seðlabankinn lækkaði vexti skarpt þegar heimsfaraldurinn var að bresta á og framboðsskellinum var mætt með mikilli aukningu ríkisútgjalda.
Færa má rök fyrir því að Seðlabankinn hafi verið of seinn til að hækka vexti eftir að faraldrinum lauk en hann er búinn að bæta fyrir það og hafa raunvextir ekki verið hærri hér á landi frá því í fjármálakreppunni. En vandinn er sá að stjórnvöld breyttu ekkert um stefnu. Frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra tók við völdum veturinn 2017 hafa útgjöld ríkissjóðs aukist um 433 milljarða króna. Ríkissjóður hefur verið rekinn viðstöðulaust með halla frá árinu 2019 og ekki er útlit fyrir að það breytist á næstu árum.
Enda eru engar takmarkanir á hugmyndum stjórnmálamanna hvort sem þeir koma úr röðum stjórnarliða eða stjórnarandstæðinga þegar kemur að aukningu ríkisútgjalda. Síðan furða menn sig á því að verðbólguvæntingar á markaði séu þrálátlega háar.
Meðan stjórnmálamenn eru fullkomlega grandvaralausir gagnvart verðbólguáhrifum þrálátrar útgjaldaaukningar
ríkissjóðs án nokkurrar hagræðingar sem heitið getur verður ekki hægt að búast við að það dragi úr verðbólgu með markverðum hætti. Eina lækningin í núverandi ástandi eru háir raunvextir og sinnuleysi stjórnmálamanna gerir það að verkum að almenningur og atvinnulíf þarf að búa við hátt raunvaxtastig.
Það er dýrt að safna skuldum í slíku ástandi og fyrr eða síðar mun vaxtastigið hafa áhrif á skattheimtu ríkissjóðs og setja núverandi fjármálaáætlun í algjört uppnám – að minnsta kosti þeim hluta hennar sem byggði á raunverulegum efnahagslegum staðreyndum.
Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist í blaðinu sem kom 24. apríl 2024.