Hrafnarnir hafa djúpstæðar áhyggjur af fjármálalæsi þingmanna. Bjarni Jónsson, hinn ferðaglaði þingmaður Vinstri grænna, skrifaði í vikunni grein á Vísi.
Þar skrifar hann: „Mörgum var brugðið þegar Arion banki tilkynnti að eigendur bankans hefðu ákveðið að hækka ávöxtunarkröfu sína og því yrði bankinn að hækka vexti íbúðalána.“ Þetta er ekki síðri dramatík en þegar faðir Bjarna, Jón Bjarnason, skrifaði í Morgunblaðið að strengur hefði brostið hjá íslensku þjóðinni þegar franska sjóðastýringafyrirtækið Ardian keypti Mílu af Símanum hérna um árið.
En aftur að syninum: Bjarni gerir sér enga grein fyrir að það eru ekki eigendur bankanna sem ákvarða þau kjör sem þeim bjóðast á markaði. Hefðu eigendur bankanna til þess eitthvert vald, vilja eða getu, væri það að hækka fjármögnunarkjör sín sennilega það síðasta sem þeir myndu gera. Það er greinilegt að Ásgeir seðlabankastjóri, bróðir Bjarna, fékk ekki greinina til yfirlestrar.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 2. október 2024.