Á þessum vettvangi er framsetning blaða- og fréttamanna á fréttum sem tengjast efnahags- og viðskiptamálum oftar en ekki til umfjöllunar. Rétt eins og í öðrum málum skiptir máli að þeir sem flytja og greina fréttir af efnahags- og viðskiptamálum hafi þekkingu á umfjöllunarefninu eða geri sér þá grein fyrir þekkingarskorti sínum.
Að því sögðu er rétt að benda á áhugaverða úttekt á fréttaflutningi Breska ríkisútvarpsins (BBC) sem birt var í janúarlok. Úttektin var unnin fyrir stjórn BBC. Um er að ræða fyrstu
skýrsluna í röð úttekta á óhlutdrægni fréttaflutnings BBC sem birtast mun á næstu mánuðum og fjallar hún um með hvaða hætti stofnunin hefur fjallað um opinber fjármál.
Í stuttu máli er niðurstaða skýrslunnar sú að skortur á þekkingu fréttamanna BBC á grundvallarlögmálum hagfræðinnar leiði til þess að þeim sé hætt við hlutdrægni í fréttaflutningi. Hlutdrægnin er ekki endilega pólitísk og ekki má greina slagsíðu til vinstri umfram hægri eftir atvikum að sögn skýrsluhöfunda. Það sem bent er á er að þekkingarleysi geri það að verkum að framsetningu fréttamanna á tíðindum um opinber fjármál er hætt við að mótast af þeim tunnum sem bylur hvað hæst í hverju sinni á samfélagsmiðlum og vettvangi dægurmálaumræðunnar.
Þannig er nefnt í skýrslunni að fréttaflutningur BBC af opinberum fjármálum hafi undanfarin ár einkennst af því að aukning ríkisútgjalda hljóti að vera sérstaklega eftirsóknarverð. Að sama skapi sjá skýrsluhöfundar þess merki að fréttaflutningurinn feli í sér að aukin skuldsetning ríkissjóðs sé neikvæð og merki um óstjórn í ríkisfjármálum. Flestir sjá í hendi sér að þetta stenst ekki skoðun: Aukning ríkisútgjalda þýðir ekkert endilega að skattgreiðendur fái meira fyrir sinn snúð enda veltir það á hvert útgjaldaaukningin rennur á endanum. Jafn framt geta verið góðar ástæður fyrir skuldsetningu ef sýnt þykir að hún leiði á endanum til hagvaxtar eða annarra gæða.
Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 9. febrúar 2023.