Indriði Stefánsson, varaþingmaður Pírata, kallaði eftir því í aðsendri grein á Vísi að Seðlabankinn gæfi út leiðbeiningar til íslenskra fyrirtækja um hversu mikill hagnaður sé æskilegur og „hvaða viðbragða megi vænta frá Seðlabankanum ef verði farið út fyrir þann ramma.“
Í greininni fer hann með gamla tuggu, sem löngu er búið að hrekja, um að meint græðgi og ofurhagnaður bankanna og smásölurisa sé helsta orsök verðbólgunnar.
Arðsemi Arion banka og Íslandsbanka var undir arðsemiskröfu á fyrri hluta árs, auk þess sem arðsemi Landsbankans var alls ekki óeðlilega mikil eða 10,5%. Því heldur engu vatni að gera bankana að sökudólg.
Að sama skapi benda hrafnarnir varaþingmanninum á að samkvæmt greiningu Seðlabankans, sem birtist í Peningamálum í nóvember á síðasta ári, hefur álagning íslenskra fyrirtækja haft afar lítil áhrif á verðbólguna síðastliðin þrjú ár.
Sannast því enn að fjármálalæsi og geta til að leggja mat á hagtölur er vandfundið innan raða Pírata.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.