Á síðustu árum hefur það færst í vöxt að fólk kjósi að sinna vinnu sinni annars staðar en á skrifstofu vinnuveitanda síns. Heimavinna eða fjarvinna er kostur sem sífellt fleiri atvinnurekendur kjósa að bjóða sínu starfsfólki upp á, í nafni aukins sveigjanleika í starfi. Þessa þróun má að hluta til rekja til aukinnar stafrænnar væðingar í samfélaginu þar sem hinn títtnefndi kórónuveirufaraldur virðist hafa flýtt fyrir.

Þessa daganna er ekki óalgengt að einstaklingar nýti sér þau tækifæri sem felast í fjarvinnunni og haldi áfram að sinna daglegum störfum meðan það ferðast eða jafnvel þegar fólk sest að erlendis, hvort sem það er tímabundið eða varanlega. Um leið og fjarvinnan teygir sig yfir landsteinana er að ýmsu að huga, bæði fyrir starfsmenn og fyrir vinnuveitandann.

Erlend skattskylda starfsmanns

Auðvelt er að falla í þá gryfju að haga skattskilum og greiðslu opinberra gjalda með óbreyttum hætti, sérstaklega ef um er að ræða tímabundna dvöl starfsmanns erlendis. Oft á tíðum eiga skattyfirvöld annarra ríkja aftur á móti rétt, samkvæmt lögum þess ríkis, til þess að skattleggja launatekjur sem starfsmaður vinnur sér inn meðan hann dvelur þar í landi. Ef við lítum til íslenskra skattalaga þá má finna slíka skattlagningarheimild í 3. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003. Í slíkum tilvikum getur íslenskur starfsmaður í fjarvinnu erlendis átt á hættu að launatekjur hans verði tvískattlagðar. Í mörgum tilvikum er hins vegar hægt að komast hjá skattlagningu launatekna starfsmanna erlendis, ef um er að ræða tímabundna dvöl (undir 6 mánuði), með beitingu tvísköttunarsamninga Íslands við viðkomandi ríki. Nánar er fjallað um skattskil aðila sem vinna í fjarvinnu erlendis í athyglisverðri grein Guðrúnar Bjargar Bragadóttur, verkefnastjóra hjá KPMG Law, sem birt var á vef Viðskiptablaðsins í fyrra (Hvert skila ég skattinum í fjarvinnu erlendis? (vb.is)).

Skattaleg áhætta fyrir vinnuveitanda – föst starfsstöð

Fjarvinna starfsmanna á erlendri grundu getur í ákveðnum tilvikum haft skattalegar afleiðingar fyrir vinnuveitanda, ef slík fjarvinna er líkleg til að koma á fót fastri starfsstöð fyrir vinnuveitandann erlendis.

Föst starfsstöð getur myndast þegar fyrirtæki hafa nægilega staðfestu í öðru landi til að skattyfirvöld þess lands geti krafist skattlagningarréttar yfir hluta tekna fyrirtækisins sem myndast þar. Þetta hugtak tekur ekki einungis til þeirra tilvika þegar sem fyrirtæki hafa sett upp útibú erlendis og ætla sér raunverulega að teygja rekstur sinn yfir til þess lands. Í tilteknum ríkjum getur föst starfsstöð myndast við það eitt að fyrirtæki sé með starfsmenn í vinnu í því ríki, jafnvel þótt starfsmennirnir sinni störfum sínum frá heimaskrifstofu eða á skrifstofu á eigin vegum. Þessar reglur eru mismunandi milli ríkja og því þarf að skoða hvert tilvik fyrir sig. Ísland hefur t.d. innleitt sérstakar reglur varðandi fastar starfsstöðvar í gegnum heimaskrifstofur með nýlegri breytingu á reglugerð nr. 1163/2016. Hin nýja viðbót við reglugerðina kveður á um að heimaskrifstofa starfsmanna erlendra fyrirtækja skuli ekki mynda fasta starfsstöð fyrir fyrirtækið að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Þá getur einnig tiltekin háttsemi einstaklinga á vegum fyrirtækis komið á fót fastri starfsstöð. Til dæmis í þeim tilvikum þegar starfsmaður (eða jafnvel verktaki) kemur fram fyrir hönd fyrirtækisins gagnvart tilvonandi viðskiptavinum eða viðsemjendum í hinu erlenda ríki og stofnar til viðskiptasambands milli þeirra og fyrirtækisins.

Listinn af mögulegum álitamálum er töluvert lengri þegar um er að ræða fjarvinnu utan Íslands í stað heimavinnu starfsmanna innanlands. Mikilvægt er að huga að þeim flækjum sem geta skapast í tengslum við skattlagningu þegar starfsmönnum er gefin heimild til að starfa fyrir hönd fyrirtækisins utan Íslands.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaði síðustu viku þann 9. febrúar.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 2.749 kr. á mánuði