Garðabær er annað tveggja sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu sem vaxið hefur hlutfallslega mest á undanförnum árum. Íbúar Garðabæjar eru nú um 19.000 og hefur okkur fjölgað um rúmlega fimmtung á síðustu fimm árum. Með hraðari uppbyggingu en víðast annars staðar hefur bærinn mætt þörfum fjölda fjölskyldna og stuðlað að auknum stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði.

Þegar þéttbýli tók að myndast í Garðabæ á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar fór íbúatalan yfir 1.000 manns og þannig hélt sagan áfram að nítján þúsundunum. Húsnæðisuppbyggingin á þeim tíma var ekki byggð á mjög samræmdu skipulagi á landsvísu. Það voru einfaldlega dugmiklir aðilar í sveitarstjórnum sem skipulögðu og seldu lóðir, sáu þörf fyrir húsnæði í námunda við höfuðborgina og leystu þarfir fjölskyldna sem fluttu í Garðahrepp sem þá hét. Samhliða tók fjölbreytilegur atvinnurekstur að skjóta rótum í sveitarfélaginu.

Í dag eru gerðar umtalsvert meiri kröfur til þess að fyrirsjáanleiki sé í íbúðauppbyggingu á landinu öllu og sveitarfélög eru hvött til að semja við ríkisvaldið um húsnæðisuppbyggingu á grunni rammasamnings ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Markmiðið er að stuðla að auknum stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði auk þess að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa.

Garðabær vex og leysir húsnæðisþarfir

Samhliða íbúafjölgun hefur Garðabær orðið fjölbreyttara samfélag. Uppbygging fjölbýlishúsa hefur verið mun meiri en annarra húsagerða undanfarinn áratug. Þá hefur áhersla verið aukin á að mæta félagslegum þörfum og horfa til samstarfs við ýmsa aðila á húsnæðismarkaði s.s. Brynju, Bjarg og Búseta.

Búast má við að Garðbæingar verði orðnir ríflega 21.000 innan næstu 5 ára.

Það má ekki gleyma að hraðri íbúafjölgun fylgir áskorun innviðauppbyggingar. Sveitarfélög standa sjálf undir fjárfestingu og rekstri leik- og grunnskóla svo dæmi sé tekið á meðan að önnur þjónusta, s.s. heilbrigðisþjónusta og þjónusta við fatlað fólk er (að mestu) fjármögnuð af ríkinu. Þróun grunninnviða s.s. veitna og samgöngukerfa krefst tilheyrandi fjárfestinga á vegum ríkis og sveitafélaga. Mín skoðun er sú að í samkomulagi þeirra hafi meiri áhersla verið á að mæta íbúðaþörf en spurningum um nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum á skömmum tíma er ósvarað. Samtímis veikist fjárhagur sveitarfélaga.

Ólíkar þarfir – að eiga eða að leigja?

Í ofangreindu samkomulagi er mikil áhersla lögð á félagslega uppbyggingu og húsnæði á viðráðanlegu verði. Þar eru sett fram nákvæm viðmið um hversu stór hluti uppbyggingar eigi að mæta félagslegum markmiðum (5%) og hversu stór hluti á að mæta markmiðum húsnæðis á viðráðanlegu verði (30%). Þessar áherslur skipta vissulega máli en það er mikilvægt að velta fyrir sér útfærslunni. Í tilviki Garðabæjar höfum við vilja og getu til að gera áætlanir um íbúðauppbyggingu þannig að biðlistar eftir húsnæði í þessum flokkum minnki jafnt og þétt. Jafnframt þarf að tryggja fjárhaginn þannig að hægt sé að veita góða þjónustu til framtíðar á öllum sviðum.

Það er umhugsunarefni að umræða um húsnæði á viðráðanlegu verði hefur einkennst mjög af áherslu á leiguúrræði en mun minni áhersla hefur verið á leiðir til að ungt og duglegt fólk geti sjálft eignast húsnæði. Það þykir mér ekki góð staða og mögulega þarf að horfa sérstaklega á hvernig hlutdeildarlán nýtast. Umhugsunarverðast er þó að lítil sem engin umræða er um stærsta hlutann af kökunni, hinn almenna húsnæðismarkað.

Nægt lóðaframboð og gott jafnvægi milli uppbyggingar ólíkra heimila leika þar lykilhlutverk. Í Garðabæ verður áherslan að mæta þessum sjónarmiðum á næstu árum. Það er líka mikilvægt að atvinnustarfsemi dafni og fólk eigi þess kost að sækja vinnu um skamman veg. Í skipulagi Garðabæjar er því gert ráð fyrir að svæði undir atvinnustarfsemi af ýmsum toga byggist upp á næstu árum.

Góð þjónusta þarf að fylgja með

Búast má við að Garðbæingar verði orðnir ríflega 21.000 innan næstu 5 ára og að íbúðum í bæjarfélaginu fjölgi um u.þ.b. 1.800. Þannig munum við skapa tækifæri fyrir fjölskyldur til að setjast að í bænum. Við munum hér eftir sem hingað til leggja áherslu á góða og jafna uppbyggingu með áherslu á innviðina og sterkan fjárhag. Við ætlum okkur að standast kröfur íbúanna um framúrskarandi þjónustu í samanburði við önnur sveitarfélög, sem staðfest er í könnunum meðal íbúa.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 16. febrúar 2023.