Davíð Þorláksson framkvæmdastjóri Betri samgangna hefur verið áberandi í fjölmiðlum í kjölfar þess að samgöngusáttmáli ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu var uppfærður á dögunum

Hrafnarnir ráku augun í að Betri samgöngur auglýsa nú eftir fjármálastjóra og samgöngustjóra og þykir þeim nokkuð vel í lagt í yfirbyggingu fyrirtækis þar sem einungis þrír starfsmenn eru fyrir. Samkvæmt ársreikningi kostar um 130 milljónir að reka skrifstofu Betri samgangna og er launa- og húsnæðiskostnaður inni í þeirri tölu.

Ljóst er að þessi kostnaður mun hækka umtalsvert þegar búið verður að ráða í stöðurnar sem eru nú auglýstar. Hvíslað hefur verið að hröfnunum að starfsmenn Betri samgangna hafi ekki átt frumkvæði að því að ráðið verði í þessi stöðugildi. Þess hafi hreinlega verið krafist af fjármálaráðuneytinu en ríkið er stærsti hluthafinn í Betri samgöngum. Það kemur hröfnunum svo sem ekki á óvart miðað það landlæga virðingarleysi sem stjórnmálamenn og embættismenn sýna skattfé borgaranna á síðari tímum.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 4. september 2024.