Silfrið hóf göngu sína á Ríkisútvarpinu á mánudagskvöld.
Hrafnarnir sáu að þáttastjórnendur ætla ekki að gera minnstu tilraun til þess að fríska upp á staðnaða dagskrárgerð. Í fyrsta þætti vetrarins ræddu Drífa Snædal talskona Stígamóta, Eygló Harðardóttir, fyrrverandi félagsmálaráðherra og sérstök kunnáttukona um prósentureikning og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, um vettvang dagsins. Í þættinum hélt Ásdís áfram að stimpla sig inn sem einn skeleggasta talsmann Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum. Samkeppnin er að vísu ekki hörð í þeim flokki.
Drífa rammaði jafnframt inn erindi vinstri manna um þessar mundir í þættinum og orðaði það sem ný forysta Samfylkingarinnar hugsar en þorir ekki að segja: Aðalstefnumálið er fjölgun ríkisstarfsmanna og hærri skattar á fyrirtæki.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 27. september 2023.